Fulltrúi Verkís í fagráði iðn- og tæknifræðideildar HR
Fulltrúi Verkís í fagráði iðn- og tæknifræðideildar HR. Verkís á fulltrúa í fagráði iðn- og tæknifræðideildar Háskólans í Reykjavík en ráðið mun koma að þróun náms við deildina. Markmiðið er að tryggja að námið svari þörfum atvinnulífsins og fyrirtæki fái til sín útskrifaða nemendur með þá þekkingu sem krafist er í starfsumhverfi nútímans. Fagráðin ná til þriggja sviða; bygginga-, rafmagns- og vél- og orkusviðs.
Magnea Huld Ingólfsdóttir, byggingarverkfræðingur á samgöngu- og umhverfissviði Verkís, situr í fagráði byggingarsviðs. Hún útskrifaðist sem byggingatæknifræðingur vorið 2005 frá Tækniháskóla Íslands sem nú er HR og lauk síðan verkfræðiprófi frá University of Washington með sérhæfingu á jarðtæknisviði.
Magnea segir hlutverk fagráðsins að vera ráðgjafar við að móta stefnu, áherslu og framtíðarsýn deildarinnar. Að undanförnu hefur verið unnið að endurskipulagningu og mótun náms í byggingartæknifræði innan deildarinnar og fyrsta verkefni fagráðsins var að gefa endurgjöf á skipulagninguna. Hluti námsins verður alltaf grunnur sem tæknimenntað fólk þarf að hafa, til að mynda í raungreinum en deildin vill efla hlut hagnýtra verkefna í náminu.
„Ég sé þetta þannig að iðn- og tæknifræðideild HR vilji efla tengingu námsins við þarfir atvinnulífsins þannig að útskriftanemar verði eftirsóttur starfsstarfskraftur. Ég lít þetta mjög jákvæðum augum og finnst frábært að HR sýni þennan metnað og frumkvæði til að efla námið og nútímavæða það, með það að markmiði að útskrifa hæfari nemendur, sem eru tilbúin að taka þátt í atvinnulífinu,“ segir Magnea.
Fagráðin gefi atvinnulífinu tækifæri til að hafa áhrif á það hvað og jafnvel hvernig nemendum er kennt sem nýtist síðan atvinnurekendum til að fá hæfara starfsfólk að loknu námi til að takast á við áskoranir í atvinnulífinu.
Magnea segir þátttökuna í fagráðinu spennandi tækifæri til að vera til ráðgjafar um þróun námsins og hún eigi góðar minningar úr náminu í Tækniháskólanum. „Þegar ég var í náminu var nemendahópurinn með fjölbreyttan bakgrunn, sem mér fannst bæta heilmikið við mitt nám, t.d. í hópavinnu. En einnig finnst mér mikilvægt fyrir Verkís að hafa góða tengingu við háskólana,“ segir Magnea að lokum.