Framkvæmdir ganga vel við Vífilsbúð
Framkvæmdir ganga vel við Vífilsbúð, nýja útilífsmiðstöð skátafélagsins Vífils í Garðabæ við Grunnuvötn í Heiðmörk og er fyrirhugað að taka skálann í gagnið næsta vor. Verkís sér um alla burðarþols- og lagnahönnun ásamt brunatæknilega hönnun.
Fjallað var um framkvæmdirnar í Morgunblaðinu. Þar er rætt við Björn Hilmarsson, formann húsnefndar skátafélagsins sem hefur jafnframt umsjón með framkvæmdunum við Grunnuvötn. Björn segir að nú sé búið að steypa sökkla og fljótlega verður platan steypt. Í vetur verði húsið, sem verður úr timbri, byggt úr staðnum á mestu. Eftir nokkra yfirlegu var sú leiði metin heppilegri en að ráðast í innflutning.
Björn segir í samtali við Morgunblaðið að húsið muni standa í um 130 metra hæð yfir sjávarmáli og verði hugsanlega það hús á höfuðborgarsvæðinu sem standa muni hæst. Aðkoma að svæðinu er eftir gömlum línuvegi frá Heiðmerkurvegi upp Vífilsstaðahlíð og vinnur skátafélagið að endurbótum á honum í samvinnu við Landsnet sem á vegin. Lögð hefur verið inn beiðni til Veitna um heimtaug að húsinu fyrir rafmagn. Þá er unnið að fráveitu- og vatnsveitumálum fyrir skálann.
„Með tilkomu útilífsmiðstöðvarinnar skapast betri möguleikar á að efla áhuga barna og unglinga á starfsemi skátafélagsins og verður húsnæðið notað til að starfrækja fjölbreytta uppeldisstarfssemi í anda skátahreyfingarinnar. Garðabær getur jafnframt notað húsnæðið fyrir tómstunda- og fræðslustarfsemi á vegum leik- og grunnskóla bæjarins. Við undirskrift
samnings um framkvæmdir lýstu samningsaðilar yfir áhuga á að húsnæðið verði nýtt sem áningarstaður í útivist almennings, t.d. í skipulögðum útivistarviðburðum í Heiðmörk á vegum bæjarfélagsins og skátafélagsins,“ segir í umfjöllun Morgunblaðsins.
Björn segir að til lengri tíma sé draumur skáta að þarna verði tjaldstæði og hægt verður að halda þar skátamót.
Verkefni: Vífilsbúð
Um þjónustu Verkís á sviði brunahönnunar, burðarvirkja, lagna og rafkerfa.