18/07/2019

Formleg opnun nýja Sólvangs

Formleg opnun nýja Sólvangs
Formleg opnun nýja Sólvangs

Formleg opnun nýja Sólvangs. Í gær var nýtt hjúkrunarheimili á Sólvangi í Hafnarfirði opnað formlega. Um er að ræða fjögurra hæða byggingu auk kjallara sem í verða 60 dvalarrými auk hreyfisalar. Stærð byggingarinnar er í heildina um 4.500 m2Ráðgert er að fyrstu íbúarnir flytji inn í byrjun ágúst.

Verkís sinnti framkvæmdaeftirliti og umsjón með uppsteypu, fullnaðarfrágangi og frágangi lóðar við verkefnið.

„Þetta er stór dagur fyrir Hafnfirðinga og nærsveitunga og gleðidagur fyrir okkur öll sem brennum fyrir bættri þjónustu og aðbúnaði fyrir aldraða“ sagði Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra við opnun heimilisins. Hjúkrunarheimilið er byggt í samræmi við kröfur og viðmið um byggingu hjúkrunarheimila þar sem stærð, skipulag og aðbúnaður eiga að stuðla að sem bestri þjónustu við íbúa heimilisins.

„Við höfum um nokkurra ára skeið lagt á það áherslu að heildræn þjónustumiðstöð fyrir eldri borgara í Hafnarfirði byggist upp á Sólvangssvæðinu. Dagurinn í dag markar tímamót í þeirri framtíðarsýn. Dagdvöl aldraðra er nú starfandi á neðstu hæð gamla Sólvangs og húsnæðið er einnig tilvalið fyrir sjúkraþjálfun, félagsstarf eldri borgara og mötuneyti svo fátt eitt sé nefnt,“ sagði Rósa Guðbjartsdóttir, bæjarstjóri Hafnarfjarðar, við opnunina.

Yfirlitmyndin sýnir framkvæmdir við nýja Sólvang. 

Sólvangur var reistur af Hafnarfjarðarbæ og var formlega vígður 25. október 1953. Í upphafi voru starfræktar á Sólvangi hjúkrunardeild, sjúkradeild með skurðstofu og fæðingardeild. Árið 1988 var tekin í notkun 2.195 m2 viðbygging við Sólvang. Þar af er heilsugæslustöðin Sólvangi með 1.123 m2 og hjúkrunarheimilið með 1.062 m2.

Á síðasta ári óskuðu bæjaryfirvöld í Hafnarfirði eftir heimild heilbrigðisráðherra til að nýta húsnæði gamla Sólvangs undir 33 hjúkrunarrými til viðbótar þeim 60 sem verða í nýbyggingunni. Erindið féll vel að áformum stjórnvalda um stórfellda uppbyggingu hjúkrunarrýma til ársins 2023 og veitti ráðherra umbeðna heimild.Hlaut Sólvangur 240 milljónir úr framkvæmdasjóði aldraðra, líkt og kemur fram í tilkynningu á vef heilbrigðisráðuneytisins.

Fjárhæðin verður notuð til að breyta fjölbýli í gamla húsnæðinu í einbýli og bæta aðstöðu til samræmis við nútímakröfur. Gamli Sólvangur mun áfram gegna hlutverki í þágu aldraðra og þegar upp er staðið fjölgar hjúkrunarrýmum á Sólvangi úr 59 í 93.

Arnar Smári Þorvarðarson, byggingartæknifræðingur, tók drónamyndirnar sem fylgja fréttinni. Aðrar myndir, fyrir utan efstu myndina, tók Hilmar Ástþórsson, byggingarverkfræðingur, en þeir sinntu verkinu fyrir hönd Verkís.

Frétt um opnunina á vef heilbrigðisráðuneytisins.
Frétt mbl.is: Nýi Sólvangur opnaður í Hafnarfirði

Formleg opnun nýja Sólvangs
Formleg opnun nýja Sólvangs