Flothylkið náði landi á Tiree í Skotlandi eftir 207 daga
Flothylkið sem Guðmundur I. Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, varpaði í sjóinn úr varðskipinu Þór á síðasta ári er komið á land á eyjunni Tiree á Skotlandi. Hylkið var 207 daga á leiðinni og ferðaðist 6700 km.
Verkefnið Plastic in a Bottle er samstarf Verkís, PAME, Umhverfis- og auðlindaráðuneytisins og Landhelgisgæslunnar. PAME er starfshópur innan Norðurskautsráðsins sem sinnir verkefnum tengdum verndun á hafsvæðum norðurslóða. Markmið verkefnisins er að sýna hvernig plast og annað rusl ferðast um heimsins höf.
Það var Hayley Douglas, landvörður á eyjunni Tiree, sem fann skeytið sl. mánudag 6. apríl og sagði frá því á Twitter.
Þetta er í annað skipti sem flöskuskeyti frá Verkís skolar á land á þessari eyju. Þann 10. janúar 2016 setti Verkís tvö flöskuskeyti á flot í samvinnu við Ævar vísindamann. Annað flöskuskeytið rak á land, eftir rúmlega árs ferðalag, við Skotlandsstrendur, nánar tiltekið í Tiree. Skeytið hafði þá ferðast í 14616.7 km. Rhoda Meek, íbúi á svæðinu, fann skeytið.
Þetta er aðeins fyrsta skeytið af nokkrum sem PAME mun senda á haf út í samstarfi við Verkís og stendur til að senda næsta skeyti af stað í sumar.
Rusl og mengun í hafi er vaxandi vandamál og hefur eitt af verkefnum PAME síðastlin ár verið úttekt á rannsóknum og umfangi plasts og annars rusls á hafsvæðum norðurslóða. Með formennsku Íslands í Norðurskautsráðinu 2019 – 2021 mun PAME vinna að svæðisbundinni aðgerðaáætlun fyrir plast og annað rusl á hafsvæðum norðurslóða og er flothylkið hluti af henni.