Ferðalög farfugla til Íslands
Ferðalög farfugla til Íslands. Nú þegar líður á apríl koma farfuglarnir einn af öðrum til landsins. Grágæsirnar Þór, Anna, Jónas, Sjókallinn og Unglingurinn bera öll ásamt helsingjanum Guðmundi sendi og því er hægt að fylgjast með ferðum þeirra.
Arnór Þórir Sigfússon, dýravistfræðingur hjá Verkís, hefur síðustu ár staðið fyrir merkingu grágæsa og helsingja en tilgangurinn er að fylgjast með ferðum þeirra, hvar farleiðir þeirra liggja og hvar þær verja vetrinum. Auk þess að skrásetja ferðir gæsanna þá fást upplýsingar um hvernig gróðurlendi þær sækja á mismunandi tímum árs og hvert þær leita í náttstað.
Ferðalag Guðmundar
Helsinginn Guðmundur flaug frá North Uist í Skotlandi til Íslands. Hann lagði af stað um miðnætti aðfaranótt 15. apríl í hægum sunnan meðbyr og var lentur við Borgarfjörð eystri um hádegi sama dag, eða um tólf klukkutímum seinna. Meðbyr hjá honum var um tíma 20 m/sek.
Í sendinum sem Guðmundur ber er hraðamælir og sýndi hann mesta hraða um 117 km/klst vestur af Færeyjum. Mælingin er ekki hárnákvæm en gefur góða vísbendingu um hraðann. Ef deilt er í vegalengdina, sem er rúmir 940 km ef tekin er bein lína, þá gefur það meðalhraða sem er tæpir 80 km/klst.
Guðmundur var merktur upp með Hólmsá í Vestur Skaftafellssýslu í fyrra og var ekki varpfugl þá. Hann gæti verið of ungur og því ekki kominn á varpaldur. Það verður því spennandi að sjá hvað hann gerir, hvort hann fer á þær slóðir sem hann var á í fyrra eða eitthvað annað.
Ferðalag Þórs
Grágæsagassinn Þór kom til landsins um áttaleytið að morgni 13. apríl. Hann hóf farflugið frá Stronsay en þar hélt hann til í vetur, ásamt því að dvelja á Mainland Orkney. Hann var sólarhring á leiðinni og virðist hafa tyllt sér tvisvar á sjóinn. Þór kom að landi nærri Papey en líkt og margar aðrar gæsir hélt hann áfram með suðurströndinni þangað til hann kom undir Eyjafjöllin.
Þór var fjórum dögum seinni á ferðinni en í fyrra. Líklega mun hann halda sig áfram undir Eyjafjöllum og næra sig en halda síðan á varpslóðir sínar sem hafa verið við Þingvallavatn. Það vorar fyrr undir Eyjafjöllum og í Landeyjum en við Þingvallavatn. Gassinn Þór er styrktur af Þór hf.
Ferðalag Önnu
Grágæsin Anna, sem merkt var í Svarfaðardal sumarið 2019, varði vetrinum aðallega á Mainland Orkney og Shapnisay. Hún lagði af stað til Íslands skömmu eftir miðnætti 14. apríl og kom að landi við Flatey á Mýrum daginn eftir. Anna er nokkuð klók gæs sem sést á því að á haustin, þegar skotveiðitíminn er á Íslandi, heldur hún sig að mestu frá túnum og ökrum. Hún sækir frekar í svarfdælsku aðalbláberin og annan villigróður í Bæjarfjallinu og Böggvisstaðafjalli, sannkallaða ofurfæðu.
Anna var rúman sólarhring á leiðinni til Íslands. Hún virðist hafa stoppað tvisvar á hafi úti. Í seinna skiptið stoppaði hún skammt undan landi við suðausturströndina og lét sig reka í um 6 klukkustundir. Hún byrjaði á því að dvelja á Suðurlandinu en fer líklega næst norður í land á heimaslóðirnar og undirbýr varp. Anna er styrkt af Sýni ehf.
Ferðalag Jónasar
Jónas (þriðji) í Hlað lagði af stað til Íslands um kl. 4 að morgni 15. apríl og flaug án hvíldar til Íslands. Hann lenti í Papey 16 klukkustundum síðar og nýtti sér vel sterkan meðbyr. Hann stoppaði um stund í Papey en fór svo upp á land og hefur dvalið í mynni Berufjarðar.
Þetta er í raun Jónas þriðji sem ber sendinn en tveir þeir fyrri voru skotnir. Jónas þriðji var svo merktur í Svarfaðardal sumarið 2020. Hann varði vetrinum að mestu á Sanday í Orkneyjum. Jónas er áhættusæknari en Anna sveitungi hans og sótti meira í tún og akra um haustið en varði síðustu vikunum svo í Ólafsfirði áður en hann hélt til Orkneyja. Jónas í Hlað er styrktur af Hlað ehf.
Ferðalag Sjókallsins
Grágæsin Sjókallinn lagði í hann kl. 5 að morgni 15. apríl og um miðnætti sama dag var hann kominn upp að ströndinni undan Hala í Suðursveit þar sem hann var í klukkutíma áður en hann hélt áfram í norðurátt, heim í Norðfjörð. Hann virðist einnig hafa tyllt sér á Straumey í Færeyjum í um klukkustund. Hann var því nokkuð fljótur í förum í þokkalegum meðbyr.
Sjókallinn hafði vetursetu á Orkneyjum, á Mainland Orkney nærri Tingwall. Hann er eins og Anna frá Svarfaðardal mikið í náttúrulegum gróðri á veiðitíma og er það örugglega hluti af skýringunni á því hve vel honum gengur að sneiða hjá því að vera veiddur.
Sjókallinn er líka ótrúlega íhaldssamur á vetrarstöðvarnar og ef veturnir 2019/20 og 2020/21 er bornir saman þá eru þeir ótrúlega líkir. Hann virðist einnig hafa tyllt sér á Straumey í Færeyjum í um klukkustund. Hann var því nokkuð fljótur í förum í þokkalegum meðbyr. Sjókallinn er styrktur af MultiTask ehf. í Neskaupstað
Ferðalag Unglingsins
Unglingurinn lagði af stað frá Westray á Orkneyjum um kl. 4 að morgni 15. apríl. Hann virðist hafa flogið yfir Færeyjar án þess að stopp og lenti hann síðan í Lóni um kl. 16 sama dag og var þvó um 16 klukkutíma á leiðinni.
Unglingurinn stoppaði í Lóni þar til um hádegi daginn eftir, þann 16. apríl að hann lagði í hann norður á bóginn og lenti í Norðfirði um kl. 22. Hann lenti á þeim slóðum sem hann var merktur, nærri golfvellinum. Þangað kom hann einnig í fyrra og þá líklega með foreldrum sínum, en ungar fylgja foreldrum sínum fyrsta veturinn.
Hann fór svo að heiman upp á Hérað í fjaðrafelli við Lagarfljótið norðan Egilsstaða og þaðan til Orkneyja. Enn á ný leitar Unglingurinn á heimaslóðir og ekki ólíklegt að þar verði hann þegar varpaldri er náð sem gæti verið næsta ár og þar muni hún (Unglingurinn er kvenkyns) á endanum verpa. Spurningin er bara hvort sendirinn endist eitt ár enn og hvort Unglingurinn lifi annað ár af.
Unglingurinn er tæplega tveggja ára kvenfugl sem var merktur á Norðfirði í byrjun ágúst 2019, þá ungi frá sumrinu. Unglingurinn er með endurnýttan sendi af breskri heiðagæs og á sér engan styrktaraðila og því nafnlaus.
Ferðalag Hjördísar
Hjördís lagði af stað frá eynni Papa Westay á Orkneyjum um kl. 18 17. apríl og var komin á Hérað um kl. 15 daginn eftir. Þar stoppaði hún í túnum við Urriðavatn áður en hún hélt snemma að morgni 19. apríl í Svarfaðardalinn. Hjördís er styrkt af Skotvís.
Grágæsamerkingarnar eru á vegum Verkís, verkfræðistofu í samvinnu við WWT og Náttúrufræðistofu Austurlands. Sendarnir eru styrktir af fyrirtækjum og samtökum og er styrktaraðilum þakkaður ómetanlegur stuðningur. Hér er hægt að fylgjast með ferðum grágæsanna https://gps.verkis.is/gaesir20/