Erindi Verkís á Iceland Innovation Week 2023
Erindi Verkís á Iceland Innovation Week 2023. Verkís tók þátt í Nýsköpunarvikunni, Iceland Innovation Week, í gær með því að standa að viðburðinum Nýsköpun í mannvirkjagerð ásamt Húsnæðis- og mannvirkjastofnun en þar fluttu starfsmenn Verkís tvö erindi.
Ágúst Pálsson, B.Sc. í vélaverkfræði, flutti erindið Hrollkaldur sannleikur úr íslenskum veruleika – Kuldabrýr og loftræsing í eldra húsnæði. Einnig var rætt við hann í Samfélaginu á Rás 1 í gær.
Hús á Íslandi hafa í gegnum tíðina gjarnan verið einangruð að innan sem eykur líkur á svokölluðum kuldabrúm. Þegar veggir eru einangraðir á þann hátt myndast frekar kaldir fletir á yfirborðinu, sérstaklega þar sem gólf- eða loftplata mætir útvegg, í hornum á milli útveggja, og leitar hitinn þá út. Kuldabrýr eru að öllum líkindum í flestum fasteignum og ef ekki er hugað að þeim geta skapast skilyrði sem eyðileggja hús og veggi og valda myglu.
Mygla myndast gjarnan í kverk í úthorni en þá verður flöturinn á byggingahlutanum það kaldur að þegar heita loftið inni í fasteigninni snertir hann myndast raki og þar getur mygla myndast. Ágúst tók í þessu samhengi dæmi um þegar farið er í sturtu á baðherbergi þar sem er klósett með utanáliggjandi klósettkassa en þegar heita loftið frá sturtunni mætir kalda klósettkassanum myndast raki á honum.
Kuldabrýr geta einnig valdið skemmdum á fasteigninni. Spenna myndast í byggingarhlutanum, þ.e. samdráttur og þensla, sem eykur líkur á sprungum.
Rakaþétting á veggjum er háð ástandi innanhúss, því heitara, því rakara. Meiri líkur eru á að mygla myndist þar sem gluggar eru sjaldan opnir og opnar hátt stilltir. Í erindi sínu fór Ágúst yfir ýmsar leiðir sem hægt er að fara til að koma þessu í betri farveg. M.a. er hægt að setja einangrun utan á eldri hús en einnig hægt að auka loftun og loftræsingu hússins.
Ragnar Ómarsson, byggingafræðingur, flutti erindi þeirra Indriða Níelssonar, byggingaverkfræðings og viðskiptastjóra, Lausnir fyrir framtíðina.
Mikið hefur verið fjallað um hvernig við eigum að hanna nýjar byggingar og draga úr kolefnisfótspori við byggingu þeirra en minna um hvernig nýta eigi byggingar, sem þegar hafa verið byggðar, með kolefnisfótspor í huga. Íslenskar byggingar sem eru til staðar voru ekki byggðar með þetta í huga, þar lágu önnur sjónarmið að baki.
Ragnar sagði að hugsa þyrfti viðhald húsa með öðrum hætti en áður. Í stað þess að hugsa bara um krónur heldur þurfi að taka kolefnisfótspor með inn í reikingninn og setja upp viðgerðarferil þannig að hægt verði að nýta mannvirkið, og þannig það kolefni sem þegar er búið að setja í það, til hins ítrasta.
Hann tók dæmi um fjölbýlishús í Breiðholti sem byggt var árið 1974. Það var einangrað að innan og hafði alvarlega galla í útveggjum, plötuskil sem voru opin og mikið rakaálag var á áveðurshliðinni sem gerði það að verkum að mikið var um rakaskemmdir og gluggar farnir að gefa sig. Húsið var einangrað að utan og klætt. Þannig voru útveggirnir varðir og arkitektúrinn hélt sér. Ávinningurinn var mikill því með þessu var komið í veg fyrir heilsuvá af völdum rakauppsöfnunar, innbyggt kolefni varðveitt til framtíðar, viðhaldsaðgerðum fækkað og kolefnisfótspor þess minnkað, verðmæti fasteignar er varðveitt, orkunorkun í rekstri dregst saman og sparar þannig kolefnisfótspor.
Hér er hægt að horfa eða hlusta á erindin. Ágúst flytur erindið sitt þegar tvær klukkustundir og fjörutíu og fimm mínútur eru liðnar og Ragnar tekur til máls þegar þrjár klukkustundir og þrettán mínútur eru liðnar af viðburðinum.