Elsta verkfræðistofa landsins
Elsta verkfræðistofa landsins. Verkfræðistofan Verkís fagnar því um þessar mundir að 90 ár eru liðin síðan Sigurður Thoroddsen stofnaði fyrstu verkfræðistofu á Íslandi og miðast aldur Verkís við þann atburð og telst því sú elsta á landinu. Starfræktar eru stofur á Sauðárkróki og Hvammstanga og vonast er til að opna á Blönduósi.
Á heimasíðu Verkís segir að það hafi verið á vormánuðum ársins 1932 sem Sigurður hóf rekstur eigin verkfræðistofu í Reykjavík og er afmælisdagurinn haldinn 12. maí. Verkís varð hins vegar til þann 21. nóvember 2008 þegar saman runnu fjögur fyrirtæki: VST-Rafteikning hf., Fjarhitun hf., Fjölhönnun ehf. og RT ehf.-Rafagnatækni. Áður höfðu VST-Rafteikning sameinast úr Verkfræðistofu Sigurðar Thoroddsen og Rafteikningu hf. Í apríl 2013 sameinuðust Verkís og Almenna verkfræðistofan undir nafni Verkís.
Allar stofurnar komu með verðmæta þekkingu og reynslu inn í Verkís og segir á heimasíðu fyrirtækisins, verkis.is, að sala verkfræðifræðiþjónustu byggi oft á fyrri reynslu af svipuðum verkefnum og alltaf á því að bjóða fram öflugt starfsfólk. Mikill styrkur sé í því að geta boðið fjölbreytta þjónustu.
Í tilefni tímamótanna ræddi blaðamaður Feykis við Ragnar Bjarnason, útibússtjóra á Akureyri, en eins og kemur fram í viðtalinu eru starfræktar skrifstofur víða á landsbyggðinni, m.a. á Sauðárkróki, Hvammstanga og vonandi í framtíðinni á Blönduósi. Ragnar er ekki ókunnugur Skagafirði, sonur Bjarna Gíslasonar og Salbjargar Márusdóttur sem áður bjuggu í Eyhildarholti í Hegranesi. Ragnar segir að starfsemi Verkís sé fjölbreytt og stefna fyrirtækisins sé að efla hana með útibúum eða skrifstofum víða á landsbyggðinni og nú í tilefni tímamótanna sé reynt að gera fyrirtækið sýnilegra almenningi.
300 manna vinnustaður
„Við opnuðum skrifstofu hér á Sauðárkróki fyrir tveimur árum, um áramótin 2019-2020, með einum starfsmanni til þess að sinna verkefnum þar. Partur af því að þétta netið okkar var að hafa skrifstofu hér. Hugsunin er sú að við getum þjónustað héðan en ekki endilega að það sitji einhver á skrifstofu í Reykjavík eða á Akureyri og vinni, heldur að það sé sýnileiki og að skilað sé inn í samfélagið á staðnum, að það séu starfsmenn sem búi hérna.“
Ragnar segir viss um að þetta form eigi eftir að eflast þar sem fólk hugsar sér til hreyfings í meira mæli og þá eru skrifstofur til staðar. „Það er meira og betur samþykkt innan fyrirtækisins að fólk geti setið hvar sem er og sinnt sínum verkefnum og það er það sem við erum að gera. Verkís er með skrifstofu og starfsmann á Hvammstanga, leiga skrifstofu á Blönduósi, og þar erum við að reyna að fá starfsmanna en það hefur ekki gengið enn, og svo erum við hér á Sauðárkróki þar sem við byrjuðum með einn starfsmann fyrir tveimur árum. Þau eru orðin fjögur og húsnæðið á Faxatorgi hefur stækkað einu sinni. Á Akureyri eru hátt í tuttugu manns og á Húsavík er einn starfsmaður.“
Ragnar útskýrir að VST hafi í gegnum tíðina verið með starfsemi úti á landi og oft í samstarfi við sveitarfélög, sérstaklega þau smáu t.d. þar sem byggingafulltrúar hafa verið ráðnir í 50% hlutastarfi hjá hvorum aðila. „Þetta er ennþá svona sums staðar. Um 300 manns vinna hjá okkur í dag og höfum við sérþekkingu á mjög mörgum sviðum sem við getum sótt í, líkt og á Sauðárkróki þar sem Magnús er með ákveðið sérsvið en svo fær hann aðstoð annars staðar frá ef þarf.“
Ragnar segir ánægður með hvernig til hefur tekist og býst hann við að starfsmannafjöldinn á Sauðárkróki gæti verið kominn upp í sex manns innan ekki langs tíma. „Þetta fólk gæti farið að vinna að verkefnum annars staðar. Mér finnst það mjög jákvætt, þá er maður að gefa fólki búsetuskilyrði úti á landi en vinnur annars staðar í gegnum tölvu, þetta er sem sagt farið í hina áttina sem mér finnst mjög gott.“
Ragnar segir fyrirtækið sinna fjölbreyttum verkefnum og stærðarinnar vegna geti það unnið í stórum verkefnum á landsvísu. „Við höfum mikið verið inni í orkuiðnaði, höfum verið að þjónusta og komið að hönnun virkjana og veitumannvirkja, t.d. komið mikið að uppbyggingu flutningakerfis rafmagns bæði með hönnun tengivirkja og eftirliti með línulögnum, strenglögnum og tengivirkjum. En af því að við erum með þessa nærtengingu svo víða á þessum starfsstöðvum út um land erum við líka að sinna smærri verkefnum eins og sumarhúsum þess vegna. Þetta er allur skalinn er mikið til erum við að þjónustu stærri fyrirtæki og opinberar stofnanir.“
Áhrif stríðsbrölts
Nú eru Covid-áhrifin og takmarkanir tengdir þeim faraldri mörgum í fersku minni enda margt sem lá í láginni þann tíma sem veiran geisaði og nú hafa ýmsir aðdrættir hækkað vegna stríðs í Evrópu. Ragnar segir að það hafi ekki haft áhrif á fyrirtækið fram að þessu en gæti þó trúað að einhverra áhrifa megi búast við héðan í frá.
„Menn vissu ekki hvaða áhrif það hefði með heimsfaraldur reið yfir en margir eflaust reiknað með neikvæðum áhrifum á okkar starfsemi. En það varð algjörlega í hina áttina og mikið að gera strax. Menn virtust fara í gang með að hugsa til framkvæmda og það hefur verið mjög mikið að gera í gegnum faraldurinn hjá okkur og mikil pressa að gera hluti, og þá strax. Menn vildu bara komast í gang og klára sem fyrst. En nú erum við að sjá alveg ótrúlegar hækkanir á byggingarefnum á stuttum tíma en ennþá hefur ekki dregið úr framkvæmdum þó það muni líklega gerast ef þetta réttir sig ekki af,“ segir Ragnar og bendir á að Úkraínustríðið sem nú stendur sem hæst hafi meiri áhrif en margir átti sig á.
Þreifað á framtíðinni
Vegna tímamótanna hefur Verkís verið meira sýnilegt í fjölmiðlum með viðtöl og greinar og jafnvel auglýst það sem hefur verið í gangi. Ragnar segir að það sem honum finnist jafnvel meira spennandi eru fræðslufundir og erindi sem fyrirtækið hefur staðið fyrir og mun verða af og til út afmælisárið. „Þá eru teknir fyrir sérstakir þættir sem snerta okkur sem verkfræðistofu og farið yfir þau mál. Eitthvað af þessu eru morgunverðarfundir og einhver stök fræðsluerindi.“
Ragnar segir menn reyna að vera með puttann á púlsinum og því til stuðnings bendir hann á að á dögunum hafi verið boðað til morgunverðarfundar þar sem umfjöllunarefnið hafi verið hlutverk rafeldsneytis í orkuskiptum og farið yfir stöðuna eins og hún er í dag á aðgengilegan hátt. „Við erum að reyna að vera ábyrg varðandi loftlagsmál og vera fram í skónum þar. Við erum að þreifa á nokkrum verkefnum með viðskiptavinum um rafeldsneyti. Það á að fara í svona fundaraðir þar sem reynt verður að snerta á framtíðinni.“