Dagur Grænni byggðar
Dagur Grænni byggðar var haldinn þann 27. september í fyrirlestrarsal Grósku. Mörg fjölbreytt erindi voru á dagskrá tengd málefninu og á meðal ræðumanna voru tveir fulltrúar frá Verkís, þeir Davíð Thor Guðmundsson og Hallgrímur Örn Arngrímsson, sem fjölluðu um sjálfbæra stýringu jarðefnaflutninga.
Verkefnið felst í því að auka sjálfbærni í jarðefnaflutningum á Höfuðborgarsvæðinu með kerfi sem heldur miðlægt utan um skráningu jarðefnisflutninga. Framkvæmdaaðilar skrá miðlægt allt það jarðefni sem tengist framkvæmdum viðkomandi aðila. Þar er skráð efnisþörf og það efni sem keyrt er í burtu frá framkvæmdasvæði. Verkefnið stuðlar að betri nýtingu jarðefna á höfuðborgarsvæðinu, hagkvæmari skipulagningu stórra jarðvinnuverkefna, lækkun kostnaðar vegna jarðefnaflutninga, styttir flutningsvegalengdir, minnkar slit og álag á vegakerfi höfuðborgarsvæðisins og lækkar kolefnisfótspor jarðefnaflutninga. Notendur geta séð yfirlit yfir alla sína jarðefnaflutninga þvert á framkvæmdir og á sama tíma séð áætlaðan akstur og kolefnisspor. Forritið sýnir notendum sparnað í akstri og kolefnisspori ef jarðefni eru samnýtt á milli framkvæmda.
Framkvæmdaaðilar eru að huga að orkuskiptum, sjálfbærni, kolefnisfótspori, vistvottun bygginga og þetta forrit er einn þátturinn í því að minna á að jarðefni eru ekki óþrjótandi auðlind samfélagsins. Forritið krefst þess að framkvæmdaaðilar hugsi um hvaða jarðefni er verið að nota, hvaðan það er að koma og hvar því er fargað. Þetta virðist oft gleymast í skipulagi framkvæmda. Forritið gerir kröfu til framkvæmdaaðila að huga að þessu strax í upphafi verkefnisins á fyrsta hönnunarstigi og svo fylgja þeir eftir þessum ákvörðunum gegnum for-, fullnaðarhönnun og allt til framkvæmdar.
Jarðefnaflutningar eru stór hluti af flest öllum framkvæmdum og krefjast stórra vinnuvéla og tækja sem valda miklum útblæstri kolefnis. Stórar jarðvinnu framkvæmdir eru t.d. vegagerð, stíflugerð, húsbyggingar, jarðgöng, o.fl. Hagræðing í efnisflutningum dregur úr losun kolefnis og kostnaði. Það eru því margir aðilar sem munu geta nýtt sér möguleika forritsins.