Blautklútar hlóðust upp í ræsi í Árbæ
Blautklútar hlóðust upp í ræsi í Árbæ. Fyrr í þessari viku hætti rennslismælir Verkís í Árbæ að geta mælt dýpt í ræsi. Ástæðan reyndist vera sú að nokkuð magn blautklúta hafði hlaðist á hringinn sem mælirinn er festur á. Þegar búið var að fjarlægja klútana og koma mælinum fyrir á ný virkaði hann aftur sem skyldi.
Verkís hefur síðustu tvö ár mælt rennsli í tveimur ræsum í Reykjavík. Víða lekur mikið regn- og jarðvatn inn í ræsin sem eiga aðeins að leiða skólp í hreinsistöðvar. Markmiðið með mælingunum er að finna út hversu mikið vatn rennur um ræsin umfram skolpið og reyna að koma í veg fyrir það eða minnka með því að laga og fóðra lagnir.
Dælustöðvar eiga aðeins að taka á móti skólpi en þegar mikið regn- og jarðvatn skilar sér þangað yfirfyllast stöðvarnar með þeim afleiðingum að neyðarlúgur þeirra opnast og skólp fer beint út í sjó, óhreinsað. Regn ætti aðeins að fara í ofanvatnslagnir en lekur víða inn á samskeytum gamalla lagna.
Veitur hafa vakið athygli á því síðustu daga að gríðarlegt magn af blautklútum, t.a.m. sótthreinsiklútum, sé í fráveitukerfinu. Svo virðist sem magn slíkra klúta, sem hent er í salerni, hafi aukist margfalt undanfarna daga og hefur það skapað mikið álag á búnað hreinsistöðva og starfsfólk Veitna.
Hreinsistöð fráveitu við Klettagarða varð m.a. óstarfhæf um tíma og fór skólpið því óhreinsað í sjóinn. Stöðva þurfti dælur til að hreinsa þær og annan búnað stöðvarinnar. Veitur hafa hvatt fólk til að nota klósett ekki sem ruslafötur og Verkís tekur undir það.