Beita nýrri nálgun við hönnun mannvirkja
Beita nýrri nálgun við hönnun mannvirkja. Á síðustu níutíu árum hafa vinnubrögð og starfsaðstæður á verkfræðistofum tekið stakkaskiptum. Framan af síðustu öld voru engar tölvur, allt var teiknað og reiknað í höndunum og allar teikningar voru á pappír. Smám saman hafa tæki og tól komið til sögunnar og tækninni fleygir fram.
Afmælisblað Verkís kom út fimmtudaginn 12. maí sl. og er viðtalið úr blaðinu. Hér er hægt að lesa blaðið í heild sinni.
Fyrir nokkrum árum innleiddi Verkís BIM-aðferðafræðina (e. Building Information Modeling) sem nýtist á líftíma mannvirkis, allt frá hönnun til verklegra framkvæmda, reksturs og viðhalds. Verkís hefur nýtt sér skýjaþjónustur frá Autodesk fyrir miðlægt aðgengi að hönnunarlíkönum, teikningum og samskiptum auk ýmissa greininga á líkönum.
Davíð Friðgeirsson er byggingarfræðingur og BIM-ráðgjafi hjá Verkís. Hann hefur leitt innleiðingu BIM hjá fyrirtækinu síðan 2015. „Síðastliðin ár hef ég fengið að taka þátt í því að þróa hvernig við hjá Verkís hönnum, byggjum, rekum og viðhöldum mannvirkjum. Það má segja að um tæknibyltingu sé að ræða og hún hefur haft talsverð áhrif á störf okkar hjá Verkís. Á heimsvísu er talið að mikill meirihluti mannvirkja fari fram úr kostnaðar- og tímaáætlunum og þá er talsverður hluti kolefnislosunar rakinn til byggingariðnaðarins. Byggingariðnaðurinn hefur setið eftir í tækniþróun miðað við annan iðnað á liðnum áratugum,“ segir Davíð.
Talið er að notkun á þrívíðum líkönum og upplýsingum þeim tengdum sé ein af þeim lausnum sem hægt er að beita til að draga úr þessari sóun. „Það gerir okkur kleift að byggja stafræna prótótýpu af mannvirkinu og á þessum grunni er hægt að nota tæknina til að greina bestu lausnirnar,“ segir Davíð.
Er hægt að fá fulla yfirsýn með því að skoða 362 teikningar?
Eitt af þeim verkefnum sem Verkís hefur unnið með BIM-aðferðafræðinni er frystihús á Grundarfirði. Davíð nefnir dæmi um teikningu af loftræstikerfi í slíkri byggingu. „Þar þurfti að skoða tólf teikningar til að fá fulla yfirsýn yfir loftræstikerfið. Þar sem um frystihús er að ræða eru mörg kerfi í byggingunni. Það þarf að skoða nákvæmlega 362 verkfræðiteikningar til að fá fulla yfirsýn yfir verkefnið. Er einhver sem getur það í raun og veru?“ veltir hann fyrir sér. Þar sem þetta verkefni var unnið í BIM var til líkan af loftræstikerfinu og því fékkst full yfirsýn á augabragði. Öll kerfi frystihússins voru hönnuð í þrívídd og var hægt að leggja þau öll saman til að tryggja heildaryfirsýn og samræmingu sem skilaði verkefninu auknum gæðum og hagræðingu í framkvæmd.
Verkís hefur lagt áherslu á árekstragreiningu og samræmingu líkana með það að markmiði að skila verkkaupum betri gögnum sem geta skapað aukið virði í framkvæmd og rekstri. Árekstragreiningin fer fram í skýjaþjónsutu þar sem allir hönnuðir hafa aðgang að uppfærðri árekstragreiningu sem finnur til dæmis lagnir sem rekast hver á aðra eða lögn sem rekst í steyptan vegg. Með þessu verklagi er hægt að fækka mögulegum vandamálum og töfum á verkstað umtalsvert án þess að það hafi mikil áhrif á hönnunarferlið.
Á skrifstofu Fjarhitunar á sjöunda áratugnum. Hanna Gunnarsdóttir tækniteiknari og tæknifræðingarnir Gunnar Erlendsson og Gunnar Geirsson.
Gagnlegt að geta gengið um mannvirkið í sýndarveruleika
Þrívíðu líkönunum fylgir sá kostur að hægt er að stíga inn í þau með hjálp sýndarveruleikagleraugna. Þetta hefur nýst hönnuðum og verkkaupum vel sem finnst gagnlegt að geta gengið um mannvirkið og fá betri tilfinningu fyrir því sem betur má fara. „Með þessum búnaði geta hönnuðir sem eru staðsettir á mismunandi stöðum rætt mögulegar lausnir og vandamál í hönnunarlíkaninu. Tími sparast við að fara á milli staða til að funda og ætla má að þetta muni einnig minnka fjarlægð á milli erlendra markaða og þannig náum við betur til erlendra viðskiptavina og samstarfsaðila,“ segir Davíð.
Miðlægt aðgengi að gögnum nýttist Verkís sérstaklega vel við hönnun tveggja stórra verkefna í Noregi og á Grænlandi með alþjóðlegum hönnunarteymum í þeim takmörkunum sem fylgdu Covid. Davíð segir að þrátt fyrir að takmörkunum hafi verið aflétt hafi samkomutakmarkanir sýnt okkur að nýjar nálganir við hönnun mannvirkja eru mögulegar. „Ég held að samræmingarfundir á netinu eða í sýndarveruleika séu komnir til að vera, allavega þeir sem snúa að verkefnum þar sem mannvirki eru hönnuð í líkönum,“ segir Davíð að lokum.