Ofan nyrðri hluta þorpsins liggur Búðargil, djúpt og bratt. Stór hluti byggðar á Bíldudal stendur á aurkeilunni neðan gilsins. Í sögu byggðarinnar hafa vatns-, aur- og krapaflóð úr gilinu verið tíð en einnig eru nokkur snjóflóð skráð. Líklegt er talið að mesta snjóflóðahætta á Bíldudal skapist þegar snjó skefur ofan af fjallinu niður í upptakasvæðin.
Vinna við forathugun varna neðan Búðargils hófst haustið 2004 í tengslum við efnistöku vegna landfyllingar fyrir kalkþörungaverksmiðju í Bíldudalsvogi. Efnistöku úr aurkeilunni var hagað þannig að hún nýttist sem hluti af snjóflóðavörnum á svæðinu.
Tillaga að snjóflóðavörnum neðan Búðargils miðast við að byggður verði 300 metra langur leiðigarður til að taka við flóðum úr gilinu og beina þeim til norðurs í gegnum byggðina og út í sjó. Efni í garðinn verður tekið úr aurkeilunni neðan gilsins og með efnistökunni mótuð renna fyrir snjóflóð meðfram garðinum. Efsti hluti garðsins stendur hæst, um 20 metra yfir botni snjóflóðarennunnar og er hannaður brattur flóðmegin á þeim kafla. Efnistaka úr snjóflóðarennunni hefur einnig verið nýtt til landfyllingar í Bíldudalsvogi. Þannig verður rennan grafin dýpra niður í aurkeiluna en annars hefði orðið.
Neðsti hluti skerningarbakka snjóflóðarennunnar verður ennfremur hækkaður upp á stuttum kafla, til þess að takmarka útbreiðslu snjóflóða til norðurs þar sem rennunni sleppir.