05/07/2022

Verkfræðistofur eru mikilvægar stoðir í samfélaginu

Verkfræðistofur eru mikilvægar stoðir í samfélaginu
Carine Chatenay, viðskiptastjóri orku- og iðnaðarsviðs Verkís

Verkfræðistofur eru mikilvægar stoðir í samfélaginu. Carine Chatenay, viðskiptastjóri orku- og iðnaðarsviðs Verkís, hefur brennandi áhuga á orkumálum og öllu sem tengist sjálfbærni. Hún segir mörg tækifæri liggja í útflutningi á þekkingu og reynslu Verkís, þá fyrst og fremst á þeim sviðum sem Verkís hefur skapað sér sérstöðu.

Afmælisblað Verkís kom út fimmtudaginn 12. maí sl. og er viðtalið úr blaðinu. Hér er hægt að lesa blaðið í heild sinni.

Íslendingar eru ótrúlega lánsamir að eiga auðlindir sem hægt er að virkja á sjálfbæran hátt. En því fylgir mikil ábyrgð, fara þarf vel með auðlindir og innviði og nýta þekkingu okkar til að styðja við velferð samfélaga sem búa yfir sambærilegum auðlindum víða um heim, segir Carine Chatenay, viðskiptastjóri orku- og iðnaðarsviðs Verkís.

„Núverandi ástand í heiminum brýnir fyrir okkur mikilvægi þess að bæta orkunýtingu og drífa í orkuskiptum innanlands. Svo vitum við ekki nákvæmlega hvaða áhrif loftslagsbreytingar koma til með að hafa á innviði okkar og helsta áskorunin er að tryggja seiglu kerfanna okkar. Við sem verkfræðingar og ráðgjafar höfum mikið til brunns að bera á þessum sviðum.“

Fjölbreytt verkefni

Carine er verkfræðingur með brennandi áhuga á orkumálum og öllu sem tengist sjálf bærni.

„Ég flutti til Íslands árið 2000 og hef starfað hjá Verkís síðan þá. Helstu verkefni mín undanfarin ár hafa snúist um að afla verkefna fyrir orku- og iðnaðarsvið en ég hef einnig tekið að mér ýmsar áhættugreiningar og stýrt eða aðstoðað við stýringu verkefna. Ég hef líka tekið þátt í stjórn Verkís og er mjög þakklát fyrir það traust sem mér hefur verið veitt.“

Mörg tækifæri fram undan

Hún segir mörg tækifæri liggja í útflutningi á þekkingu og reynslu Verkís, þá fyrst og fremst á þeim sviðum sem Verkís hefur skapað sér sérstöðu.

„Þar má helst nefna þekkingu og reynslu á nýtingu jarðvarma og vatnsafls. Verkís leggur sérstaka áherslu á heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun, meðal annars „Sjálfbæra orku“, „Sjálfbærar borgir og samfélög“ og „Jafnrétti kynjanna“. Auk þess að taka þátt í verkefnum víða tökum við virkan þátt í að deila þekkingu okkur enda veitir okkur ekki af að þjálfa upp fólk ef við viljum tryggja kolefnishlutleysi fyrir árið 2050.“

Mikilvægar stoðir í samfélaginu

Ráðgjafar- og verkfræðistofur eins og Verkís hafa í gegnum tíðina verið mikilvægar stoðir í samfélaginu, að sögn Carine.

„Þegar maður horfir í baksýnisspegilinn og sér allar breytingarnar sem hafa orðið á síðastliðnum 20 árum í þjóðfélaginu, þá er nokkuð ljóst að þær hefðu ekki orðið án aðkomu verkfræðinga. Það er mikil vakning í þjóðfélaginu og aukinn áhugi fyrir sjálfbærni. Tækni og snjallvæðing einfaldar líf okkar og gerir okkur kleift að vera skilvirkari. Svo er náttúruvá alltaf fyrir hendi. Ég sé fyrir mér að Verkís muni taka virkan þátt í að byggja upp samfélög í framtíðinni.“

Heimsmarkmið

Verkfræðistofur eru mikilvægar stoðir í samfélaginu
Carine Chatenay, viðskiptastjóri orku- og iðnaðarsviðs Verkís