Ætlar þú í fjallgöngu í sumar?
Ætlar þú í fjallgöngu í sumar? Góður undirbúningur er lykillinn að því að fjallaferðir gangi vel og ferðalangar komi heilir heim.
Heiður Þórisdóttir, sérfræðingur í öryggis- og áhættustjórnun hjá Verkís, gefur göngugörpum nokkur góð ráð.
Áður en lagt er af stað er mikilvægt að velja verkefni sem hentar hópnum, eða hóp sem hentar verkefninu. Hugum að lengd ferðar, landslagi, aðgengi að upphafs- og endastað og mögulegum hættum.
Ferðaáætlun:
Skiljum eftir ferðaáætlun hjá aðstandendum og jafnvel líka hjá Safetravel. Ferðaáætlun ætti að greina frá fyrirhugaðri leið, tímasetningum við upphaf og lok ferðar, næturstöðum ef gist er, þátttakendum og tengiliðaupplýsingum. Einnig er gott að taka fram hvaða fjarskiptatæki og öryggisbúnaður er með í för, sem og sérhæfða kunnáttu ferðalanga.
Kynnum okkur aðstæður:
Á hvernig svæði er förinni heitið? Eru sérstakar hættur þar? Er þörf á sérhæfðri kunnáttu eða búnaði? Skoðum veðurspána og tökum tillit til hennar við undirbúning ferðarinnar.
Búnaður:
Á Íslandi er allra veðra von. Pössum að þurru fötin blotni ekki í bakpokanum þótt það rigni. Munum líka eftir sólarvörn og sólgleraugum.
Heppilegur klæðnaður samanstendur yfirleitt af:
- einangrandi innsta lagi sem helst hlýtt þótt það blotni (ullarnærföt eða álíka)
- miðlagi til hitastýringar (peysur, þunnar úlpur og annað sem er auðvelt að klæða sig í og úr eftir þörfum)
- ysta lagi sem ver frá vindi og vatni
Á fjöllum er orku- og næringarríkt nesti nauðsynlegt fyrir líkama og sál. Veljum nesti sem okkur finnst gott og er auðvelt að grípa í (svo við nennum að borða). Verum dugleg að drekka vatn og höfum vatnsbrúsann á stað sem við náum auðveldlega í.
Höfum meðferðis viðeigandi neyðarbúnað, t.d. sjúkrabúnað, fjarskiptatæki, gps, kort og áttavita, neyðarskýli og annað eftir þörfum. Á fjöllum eru almennt ekki vatnsklósett. Gerum ráðstafanir varðandi hvernig við ætlum að sinna þörfum okkar.
Meðan á ferðinni stendur þarf stöðugt að fylgjast með og endurmeta aðstæður
Leiðarval:
Hugum að leiðarvali á stóra og smáa skalanum. Veljum aflíðandi hryggi frekar en brattar skriður. Forðumst staði þar sem fallhætta er mikil eða líkur eru á grjóthruni. Þverum ár þar sem þær breiða úr sér og dregur úr straumnum.
Hugsum vel um okkur:
Drekkum vel og reglulega, borðum áður en við verðum orkulaus, klæðum okkur áður en kuldinn sækir að (um leið og stoppað er í pásu). Verjum okkur frá sólinni og bætum reglulega á sólarvörnina.
Fylgjumst með félögunum:
Er einhver farinn að dragast aftur úr? Er einhver óvenju þögull? Fylgjumst hvert með öðru, spyrjum hvernig fólki líði, hvetjum félagana til að borða, drekka og halda á sér hita.
Endurmetum aðstæður:
Verum vakandi fyrir breytingum í umhverfi, veðri og líðan fólks. Breytum áætlun eftir þörfum og snúum við áður en við lendum í vandræðum.