24/05/2022

Ný göngu- og hjólabrú yfir Elliðaár

Ný göngu- og hjólabrú yfir Elliðaár
ny-gomul-bru-yfir-dimmu

Ný göngu- og hjólabrú yfir Elliðaár. Hluti framkvæmdanna við nýjan Arnarnesveg felst í gerð göngustíga og nýrrar brúar yfir Elliðaár við Dimmu. Verkís vann forhönnun brúarinnar ásamt Úti Inni arkitektum í samstarfi við Vegagerðina og Reykjavíkurborg.

Núverandi brú er gömul lagnabrú fyrir vatns- og hitaveitu og hafa brattar og þröngar tröppur beggja vegna hennar reynst mörgum farartálmi, sérstaklega á veturna.

Forhönnun brúarinnar gerir ráð fyrir trébrú í þremur höfum og þess er sérstaklega gætt að hún falli vel að umhverfinu. Tré verður aðalbyggingarefni hennar og vegna þýðingu og sérstöðu Elliðaána er mikilvægt að brúin sé opin, aðlaðandi og falleg. Notkun á tré í brúna hefur kosti í loftlags- og umhverfissamhengi, þar sem hún bindur koldíoxíð, auk þess sem brúin verður létt með lítilli eiginþyngd.

Samsetta myndin er annars vegar tölvugerð mynd (Úti Inni arkitektar) af nýju brúnni og hins vegar ljósmynd af núverandi brú (Vegagerðin)

Teikning af nýrri brú yfir DImmu

Mynd: Úti Inni arkitektar

Núverandi brú yfir Dimmu er gömul lagnabrú fyrir vatns- og hitaveitu og beggja vegna hennar þarf að ganga upp þröngar og nokkuð brattar tröppur sem hafa reynst mörgum farartálmi. Yfir vetrartímann hefur fólk átt í erfiðleikum með að fara um brúna, ekki síst með vagna, kerrur eða hjól og því löngu tímabært að byggja nýja brú sem stenst nútímakröfur.

Elliðaárnar koma úr Elliðavatni og renna um land Kópavogs og Reykjavíkur. Sá hluti Elliðaáa sem rennur vestan Víðivalla heitir Dimma, en áin ber Dimmunafnið allt frá Selásfossi ofan við Vatnsveitubrú að Elliðavatnsstíflu. Við hönnunina er tekið tillit til þeirra sem nota Elliðaárdalinn til útivistar og afþreyingar, sem og þeirra sem veiða í ánum og því er aðgengi undir brúna tryggt.

Framkvæmdir hefjast að öllum líkindum á næsta ári og þegar nauðsynleg leyfi frá Fiskistofu og veiðiréttarhöfum liggja fyrir, segir á heimasíðu Vegagerðarinnar. Nýir göngu- og hjólastígar eru hluti af stofnstígakerfi höfuðborgarsvæðisins og verða aðskildir fyrir gangandi og hjólandi. Brúin verður fær þjónustubifreiðum í tengslum við viðhald og snjóruðning.

Göngu- og hjólabrú yfir Elliðaár við Dimmu | Fréttir | Vegagerðin (vegagerdin.is)

Endurbætur stíga í Elliðaárdal | Fréttir | www.verkis.is
Verkís hannar þriðja áfanga Arnarnesvegar | Fréttir | www.verkis.is

Ný göngu- og hjólabrú yfir Elliðaár
ny-gomul-bru-yfir-dimmu