Loksins verpir tjaldurinn aftur á þaki Versló
Loksins verpir tjaldurinn aftur á þaki Versló. Í nokkur sumur fylgdist starfsfólk Verkís í Reykjavík með tjaldapari sem verpti á þaki næsta húss, Verslunarskóla Íslands. Þau héldu tryggð við óðal sitt þangað til eitt sumarið þegar þau verptu ekki. Eftir nokkurra ára hlé liggur loks tjaldur á hreiðri á þakinu, starfsfólki Verkís til mikillar gleði.
Höfuðstöðvar Verkís eru staðsettar í Ofanleiti 2 í Reykjavík, í byggingu á fimm hæðum. Við hlið okkar er Verslunarskóli Íslands og á móti stendur Kringlan. Fjöldi bíla fer um göturnar í kringum okkur, þar á meðan hina fjölförnu Kringlumýrarbraut þaðan sem berst nær stöðugur umferðarniður. Þetta hljómar ekki eins og svæði þar sem gott og öruggt er að koma fuglsungum á legg. En þrátt fyrir það hafa allnokkur fuglapör af nokkrum tegundum verpt á lóðinni Verkís og í kringum hana. Þar má nefna tjalda, sílamáfa og grágæsir.
Með því að verpa og liggja á eggjum á þaki Verslunarskólans eru fuglarnir óhultir frá köttum, afræningjum sem gera fuglum lífið leitt á varptímanum. Þar eru þeir líka í skjóli frá mannfólkinu og bílunum en þetta er þó langt frá því að vera öruggur staður því tjaldinum stendur t.a.m. ógn af nágranna sínum á þakinu, sílamáfnum, sem á það til að éta unga annarra fugla. Þá er þak á margra hæða húsi heldur ekki öruggur staður fyrir ófleyga unga, líkt og starfsfólk Verkís varð vitni að sumarið 2016 þegar annar ungi tjaldpars hrapaði til bana.
Fylgist spenntur með varpinu á þaki Versló
Árið 2012 flutti Verkís í hús á fimm hæðum við Ofanleiti 2 í Reykjavík, þar sem Háskólinn í Reykjavík var áður til húsa. Arnór Þórir Sigfússon, dýravistfræðingur og sérlegur áhugamaður um fugla, kunni vel að meta að sjá yfir á þak næsta húss, Verslunarskóla Íslands, frá fimmtu hæðinni og fylgist vel með þegar tjaldur lá þar á eggjum sumarið 2014. Sumarið 2016 bættist sílamáfurinn við á þakið, sama sumar og annar ungi tjaldaparsins hrapaði til bana af þakinu.
Fyrstu ár sílamáfsins, 2016 og 2017, verpti hann í norðvestur- og suðvesturhornin á þakinu undir kantinum en tjaldaparið hélt sig eins langt frá máfnum og það mögulega gat. Sumarið 2018 færði máfurinn sig og verpti undir viðarhríslu miðja vegu undir suðurkantinum. Tjaldaparið verpti ekki á þakinu það sumar og hefur það hugsanlega látið í minnipokann fyrir máfnum. Það mætti þó á þakið sumarið 2019 og virðist hafa kannað aðstæður til varps en ekki talið nógu öruggt að verpa þar.
En nú hefur aftur orðið breyting á. Tjaldur liggur á eggjum á þaki Verslunarskólans á svipuðum stað og tjaldar hafa áður verpt á þakinu. Arnór telur vel mögulegt að um sama parið sé að ræða. Þau gætu hafa flutt sig af þakinu þar sem þeim hafi staðið ógn af sílamáfnum en síðan flutt sig aftur á þakið vegna þess að kettir hafi ógnað þeim á nýja varpstaðnum á jörðu niðri.
Tjaldur er einkvænisfugl sem heldur ekki aðeins tryggð við maka sinn heldur einnig við óðal sitt, þar sem hann verpir. Það þarf því ekki að koma á óvart að fuglar komi aftur á sama staðinn á hverju ári í nokkur ár til að verpa. Tjaldurinn er langlífur og getur orðið allt að 35 ára og jafnvel eldri.
Annar tjaldurinn sem kom til okkar fyrstu árin var merktur en eitt sumarið kom hann ekki, heldur voru báðir fuglarnir ómerktir. Arnór Þórir segir líklegt að annar fuglinn hafi drepist, sá sem var merktur, og þá hafi hinn fundið sér annan maka og snúið aftur á gamla óðalið.