Endurbætur á húsnæði geta lækkað hitavatns- og rafmagnsnotkun
Endurbætur á húsnæði geta lækkað hitavatns- og rafmagnsnotkun. Á morgun, fimmtudaginn 31. mars, standa Veitur og Grænni byggð fyrir málþingi um bætta orkunotkun í byggingum sem ber yfirskriftina Skrúfum fyrir sóun.
Þorleikur Jóhannesson, vélaverkfræðingur og viðskiptastjóri á orku- og iðnaðarsviði Verkís, mun í erindi sínu á málþinginu setja fram raundæmi um hvernig endurbætur á íbúðarhúsnæði geta lækkað hitavatns- og rafmagnsnotkun.
Löngum hefur verið litið á hitann í iðrum jarðar sem ótæmandi auðlind, en sú er ekki raunin. Umgangast þarf hitann með sjálfbærni að leiðarljósi og áherslu á að nýta ekki meira en þörf er á. Á málþinginu verður fjallað um hvernig hægt sé að stuðla að bættri orkunotkun í húsbyggingum, og m.a. verður farið yfir reglugerðir, hönnun og lausnir.
Á málþinginu gefst tækifæri fyrir framleiðendur, hönnuði, byggingafélög og verktaka til að hittast og fræðast.
Málþingið verður haldið í húsnæði Veitna að Bæjarhálsi 1 fimmtudaginn 31. mars kl. 10-13. Einnig verður boðið upp á beint streymi. Málþingið er opið öllum og aðgangur ókeypis.