12/05/2021

Hvernig er hægt að koma í veg fyrir eða bregðast við gróðureldum?

Hvernig er hægt að koma í veg fyrir eða bregðast við gróðureldum?
Lýst yfir hættustigi almannavarna vegna hættu á gróðureldum.

Hvernig er hægt að koma í veg fyrir eða bregðast við gróðureldum? Fyrr í þessari viku var í fyrsta skipti lýst yfir hættustigi almannavarna vegna hættu á gróðureldum. Lítið hefur rignt á svæðinu sem um ræðir að undanförnu og hefur verið nokkuð um gróðurelda.

Dóra Hjálmarsdóttir, ÖHU fulltrúi og ráðgjafi hjá Verkís, hefur tekið saman nokkra punkta um forvarnir og viðbrögð við gróðureldum.

Í miklum þurrkum er mikil hætta á gróðureldum. Eldur getur kviknað af minnsta neista t.d. af neista frá útblæstri bifreiða, ljósbroti í glerbroti, sígarettum, heitum vélum eða einnota grillum.

Almennar forvarnir

  • Forðumst að kveikja eld eða gera eitthvað sem myndar neista
  • Verum viðbúin að grípa til aðgerða kvikni eldur
  • Bleytum í þurrum gróðri í okkar nærumhverfi.

Forvarnir á sumarhúsasvæðum

  • Farðu varlega með eld, hafðu ávallt vatn og verkfæri tiltæk
  • Hreinsaðu gróður frá húsum, skapaðu gróðurlítið svæði næst húsinu
  • Tryggðu aðgang að slökkvivatni (garðslanga, útikrani – með hraðtengi)
  • Hafðu tiltækar klöppur, nornakústa, hrífur og skóflur
  • Kynntu þér flóttaleiðir af svæðinu – eigðu flóttaáætlun
  • Kynntu þér örugg svæði (gróðurlítil svæði, svæði við vatn eða á)
  • Þekktu öryggisnúmer hússins sem þú dvelur í (fasteignanúmer) og festu það upp inni og úti

Forvarnir á skógarsvæðum

  • Kveiktu aldrei eld nema í þar til gerðu eldstæði, sé það heimilt
  • Kynntu þér flóttaleiðir af svæðinu
  • Kynntu þér örugg svæði (gróðurlítil svæði, svæði við vatn eða á)

Grípum strax til aðgerða ef eldur kviknar:

  • Hringdu í 112
  • Gerðu fólki í nágrenninu viðvart
  • Reyndu að slökkva eldinn eða stöðvar útbreiðslu hans með öllum tiltækum ráðum

Skipulag til framtíðar

Núverandi þurrkatíð er bara byrjunin á því sem við eigum eftir að sjá í framtíðinni. Í skipulagsferlinu er tekið á skipulagi brunavarna á nýjum svæðum. Mikið verk er óunnið við það að lagfæra skipulag eldri svæða. Sveitarfélög, landeigendur, félagasamtök og einstaklingar þurfa í samvinnu við slökkvilið og aðra ráðgjafa að taka höndum saman og tryggja brunavarnir á sínum svæðum.

Verkís býður fram ráðgjöf við brunavarnir svæða, hvað varðar skipulag vega og vatnsöflunar, flóttaleiða og öruggra svæða, grisjunar og skipulags gróðurs. Sé frekari upplýsinga óskað hafið samband við Dóru Hjálmarsdóttur.

Ítarlegri upplýsingar vegna gróðurelda er að finna á heimasíðunni www.grodureldar.is

Heimsmarkmið

Hvernig er hægt að koma í veg fyrir eða bregðast við gróðureldum?
Lýst yfir hættustigi almannavarna vegna hættu á gróðureldum.