Nýtt iðnaðarhúsnæði á Blönduósi
Nýtt iðnaðarhúsnæði á Blönduósi. Á laugardaginn var tekin fyrsta skóflustunga að nýju húsi að Ægisbraut 2 á Blönduósi. Það mun rísa 1.200 m² iðnaðarhús og er Verkís meðhönnuður hússins. Í fyrsta áfanga, sem verður um 440 m², verður sérhæfð matvæla- og heilsuvöruframleiðsla.
Jóhannes Torfason, stjórnarformaður Protis og Vilko, tók fyrstu skóflustunguna með fornu áhaldi, ræsaspaða, sem þekkt var í sveitum landsins á fyrri hluta síðustu aldar. Vilkó keypti heilsuvöruframleiðslu Protis af Kaupfélagi Skagfirðinga um áramótin.
Í fyrsta áfanga verður heilsuvöruframleiðsla Protis flutt í húsið og síðan fleiri framleiðslueiningar sem nú eru á vegum Náttúrusmiðjunnar og Vilkó. Þá verður lögð áhersla á að fá fleiri frumkvöðla og fyrirtæki til að hefja starfsemi í húsinu.
Verkís opnaði nýja starfsstöð á Blönduósi í mars sl.