Verkís tók þátt í ársfundi Grænvangs
Verkís tók þátt í ársfundi Grænvangs. Á ársfundi Grænvangs 2021 var fjallað um grunninn sem íslensk stjórnvöld, íslenskt atvinnulíf og Grænvangur hafa lagt að loftslagsvænni framtíð og mikilvægi þess að halda áfram á sömu braut til að skapa sjálfbæra framtíð með góðri samvinnu.
Íslandsstofa og Grænvangur vinna saman að því að kynna Ísland sem leiðandi land á sviði sjálfbærni í öflugu samstarfi við íslensku sendiráðin og íslensk fyrirtæki.
Grænvangur er samstarfsvettvangur atvinnulífs og stjórnvalda um loftlagsmál og grænar lausnir og sinnir kynningarstarfi á framlagi Íslands til loftlagsmála á erlendri grundu. Auk þess tekur Grænvangur virkan þátt í að tengja íslenskt atvinnulíf og stjórnvöld saman til að ná sameiginlegu markmiði um kolefnishlutleysi 2040.
Á ársfundinum sögðu íslenskar verkfræðistofur frá verkefnum sem þær hafa komið að á heimsvísu. Verkís sagði frá mikilvægu jarðhitaverkefni í Afríku sem hefur bein áhrif á sjálfbæra þróun á heimsvísu.
Carine Chatenay, byggingarverkfræðingur og viðskiptastjóri á Orkusviði Verkís, flutti erindi fyrir hönd Verkís. Það bar yfirskriftina Um mikilvægi sameiginlegs markaðsstarfs: Örsaga um Tulu Moye í Eþíópíu.
Grænvangur hefur umsjón með gerð Loftslagsáætlanar atvinnulífsins þar sem íslenskt atvinnulíf setur fram heildstæða yfirsýn yfir markmið hverrar atvinnugreinar og hvernig megi auðvelda atvinnulífinu að ná markmiði um kolefnishlutleysi.