Fjölmargir spennandi smávirkjanakostir á Vestfjörðum
Fjölmargir spennandi smávirkjanakostir á Vestfjörðum. Verkfræðistofan Verkís vann yfirgripsmikla skýrslu síðastliðið vor, um frumúttekt á smávirkjanakostum á Vestfjörðum. Þeir Jóhann Birkir Helgason og Unnar Númi Almarsson hjá Verkís unnu skýrsluna fyrir Vestfjarðastofu og ræddu niðurstöður hennar við Fréttablaðið.
Í skýrslunni mátu Jóhann og Unnar 68 mögulega smávirkjanakosti á Vestfjörðum. Úttektin er langt í frá tæmandi, en þeir kostir sem voru skoðaðir voru fundnir með kerfisbundinni yfirferð loftmynda, korta og landlíkana.
„Útkoman er sú að 18 þessara kosta teljist vera hagkvæmir. Eftir að hafa staðsett þá kosti sem við vildum skoða útfærðum við þá nánar. Við ákvörðuðum hentuga tilhögun, fundum stíflustæði, skoðuðum mögulega legu vatnsvega og hentugt stöðvarhússstæði. Þá mátum við uppsett afl og orkuframleiðslu kostanna út frá orkulíkani og svo var kostnaður við hverja virkjun fyrir sig metinn með kostnaðarlíkani. Þannig fékkst mat á hagkvæmni kostanna. Þar sem um samræmda aðferðafræði var að ræða voru þeir vel samanburðarhæfir. Ef farið væri í allar þessar 18 smávirkjanir, sem við gerum ekki endilega ráð fyrir að verði gert, myndi uppsett afl þeirra til samans vera um 43 MW,“ segir Unnar.
Þjónusta Verkís : Smávirkjanir