21/09/2020

Umhverfismat fiskeldis Stofnfisks í Vogum

Umhverfismat fiskeldis Stofnfisks í Vogum
Mat á umhverfisáhrifum-kynning

Umhverfismat fiskeldis Stofnfisks í Vogum. Frummatsskýrsla vegna fyrirhugaðrar aukningu á framleiðslu á laxi hjá Stofnfiski hf. í Vogavík er til meðferðar hjá Skipulagsstofnun. Verkís hefur unnið að mati á umhverfisáhrifum vegna breytinga á starfseminni.

Í eldisstöð fyrirtækisins við Vogavík í Sveitarfélaginu Vogum, fara fram kynbætur á laxi til að aðlaga hann að eldisaðstæðum, með það að markmiði að auka vaxtarhraða í eldi, efla ónæmiskerfi eldisfisks og minnka streituálag hans. Afurðin er laxahrogn.

Fyrirtækið sér öllum laxeldisstöðvum á landinu fyrir laxahrognum og er eina fyrirtækið á Íslandi sem selur laxahrogn til annarra landa. Sérstaða fyrirtækisins felst í því að það framleiðir sjúkdómslaus hrogn og er Stofnfiskur t.d. eina fyrirtækið í heiminum sem hefur heimild til að selja laxahrogn til Síle, sem það hefur gert frá árinu 1995.

Til stendur að auka framleiðslu á laxi úr 200 tonnum í allt að 450 tonn til að auka hrognaframleiðslu fyrirtækisins. Vegna meiri framleiðslu í eldisstöðinni þarf að auka vinnslu á grunnvatni um 400 l/sek, þannig að heildarvinnslan verði tæplega 1.400 l/sek.

Verkís hefur unnið að mati á umhverfisáhrifum fyrirhugaðrar framleiðsluaukningar og eru niðurstöður matsins settar fram í frummatsskýrslu sem nú er til kynningar á vegum Skipulagsstofnunar. Þann 9. september síðastliðinn hélt framkvæmdaraðili opið hús í Tjarnarsal, Stóru- Vogaskóla, þar sem niðurstöður umhverfismatsins voru kynntar. Upplýsingar um framkvæmdina og umhverfisáhrif hennar voru settar fram á veggspjöldum og fulltrúar frá Stofnfiski og Verkís voru á staðnum til að svara fyrirspurnum.

Allir geta kynnt sér frummatsskýrslu og lagt fram athugasemdir. Athugasemdir við frummatsskýrslu skal senda til Skipulagsstofnunar, í tölvupósti á skipulag@skipulag.is eða í bréfi á Skipulagsstofnun, Borgartúni 7b, 105 Reykjavík. Athugasemdum skal skila eigi síðar en 15. október 2020.

Umhverfismat fiskeldis Stofnfisks í Vogum
Mat á umhverfisáhrifum-kynning