Vilja kanna nýja aðferð við að meta sig á jarðvegi
Vilja kanna nýja aðferð við að meta sig á jarðvegi. Verkís hlaut nýverið styrk úr Rannsóknarsjóði Vegagerðarinnar vegna sigmælinga með LiDAR á þyrildi. Tilgangurinn er að skoða hvort hægt sé að nota búnaðinn til að meta sig á framkvæmdasvæðum í stað þeirra aðferða sem nú eru notaðar, eða sem stuðningur við núverandi aðferðir.
Sig á jarðvegi er talsvert algengt við vega- og aðra mannvirkjagerð á Íslandi. Hingað til hafa sigmælingar að mestu leyti farið fram með sigplötum og sigslöngum sem komið er fyrir í fyllingum. Þær mælingar sýna eingöngu nokkra mælipunkta.
Verkefnið felst í því að mæla sig í fergingu með því að nota LiDAR skanna sem festur er á þyrildi. Mælingar með þyrildi myndu ná yfir stærra svæði og sýna samfelldar mælingar en ekki eingöngu nokkra mælipunkta. Mælingar úr LiDAR skanna verða bornar saman við hefðbundnar mælingar úr sigplötum og sigslöngum. Vonast er til að LiDAR skönnun sýni vel áhrifasvæði fergingarinnar og hægt verði með þeim að meta magn og tíma sigs. Einnig er möguleiki á að að fylgjast með hvort framkvæmdir hafa áhrif annars staðar en undir sjálfri fergingunni.
Niðurstöður verkefnisins mun fjalla um kosti og galla þess að nota LiDAR til mælinga þar sem verður bæði horft á gæði og nákvæmni niðurstaða ásamt kostnaðarsamanburði á mismunand aðferðum.
Verkefnið verður unnið í samstarfi við Svarma ehf. sem hefur sérhæft sig í notkun og hönnun flygilda og þyrilda.
Þrívíð líkanagerð með LiDAR skönnun úr þyrildi – bæklingur um þjónustu Verkís og Svarma