01/04/2020

Viðtal: Egill Skúli, sjómaðurinn sem varð rafmagnsverkfræðingur

Viðtal: Egill Skúli
Egill Skúli

Viðtal: Egill Skúli Ingibergsson er fæddur og uppalinn í Vestmannaeyjum. Í æsku gerði hann ráð fyrir að sjómennskan yrði hans ævistarf, líkt og annarra karlmanna í bænum.

Það hvarflaði ekki að honum að hann myndi feta menntaveginn alla leið til Danmerkur, útskrifast sem rafmagnsverkfræðingur og seinna gegna starfi borgarstjóra um tíma.

Verkís var stofnað þann 21. nóvember 2008. Við stofnunina runnu saman fjögur verkfræðifyrirtæki og var eitt þeirra VST – Rafteikning hf. Egill Skúli er annar af tveimur stofnendum Rafteikningar.

„Á þeim árum, þegar ég var að alast upp, var sjómennskan í Vestmannaeyjum atvinnugreinin sem allir strákar fóru í og ætluðu í. Ég var ekkert öðruvísi en þeir með það,“ segir Egill Skúli. Hann er fæddur 23. mars 1926 og því nýorðinn 94 ára gamall. Það eru liðin 87 ár frá því að hann tók þátt í saltfisksþurrkun í fyrsta skipti, sex ára gamall. Til að byrja með fékk hann 25 aura á tímann en næstu fjögur árin hækkaði kaupið um 10 aura á ári. Þótti það nokkuð gott.

Þegar Egill Skúli komst á fermingaraldur hafði Einar Sigurðsson, kallaður ríki, hafið rekstur frystihúss í Vestmannaeyjum. Til að byrja með var aðeins flakaður flatfiskur og þá voru það aðeins konur sem flökuðu. Við upphaf seinni heimstyrjaldar, árið 1939, var ákveðið að láta reyna á að flaka einnig bolfisk; þorsk, ýsu og fleiri tegundir af því tagi. Mennirnir flökuðu bolfiskinn en konurnar flatfiskinn.

„Þetta hafði aldrei verið gert áður. Hann réði okkur til reynslu, sextán stráka á fermingaraldri. Eftir mánuð fengu átta að halda áfram og var ég svo heppinn að vera einn þeirra. Við vorum í vinnu hjá Einari allt þetta sumar,“ útskýrir hann. Um haustið fór hann í gagnfræðiskóla en hugurinn færðist nær sjónum. Næstu þrjú sumur var hann á sjó og líkaði það vel, nema að einu leyti.

„Ég var alltaf drullusjóveikur þegar ég fór frá landi og var það í svona hálfan sólarhring. Ég þurfti ekki annað en að stíga út á bryggju til að finna fyrir sjóveiki,“ rifjar Egill Skúli upp. Þrátt fyrir þessar hrakningar entist hann á sjónum í þrjú sumur og fram á eina vertíð en gafst þá loks upp. Í samráði við foreldra sína ákvað hann að fara í framhaldsskóla eftir gagnfræðiskóla og gera tilraun til að komast inn í Verslunarskóla Íslands.

Hann bendir á að þetta hafi alls ekki verið sjálfgefið því foreldrar hans voru tekjulitlir á þessum tíma og í Reykjavík varð að leigja herbergi og kaupa fæði. Alla þrjá veturna í gagnfræðiskólanum var hann með hærra en 8 í aðaleinkunn. Hann lauk stúdentsprófi frá VÍ 1948, verkfræðiprófi frá HÍ 1951 og MS-prófi í verkfræði frá DTH í Kaupmannahöfn 1954.

Egill Skúli vann veturinn 1942 hjá Einari í frystihúsinu og sinnti starfi verkstjóra í flökuninni þangað til að hann fór til Reykjavíkur í apríl og tók inntökupróf inn í þriðja bekk í Versló. Hann komst inn og lauk stúdentsprófi 1948. Í framhaldi af því skráði hann sig í verkfræði í Háskóla Íslands. Eftir að hafa lokið fyrrihlutaprófi í HÍ lá leiðin til Danmerkur. Á þessum tíma var Ísland með samning við danska háskólann DTH, um að tekinn yrði inn ákveðinn fjöldi verkfræðinema sem höfðu lokið fyrrihlutaprófi á Íslandi. Hann fór ásamt níu öðrum árið 1952 og lauk hópurinn verkfræðiprófi tveimur árum síðar.

Þegar hann valdi sér grein innan verkfræðinnar, rafmagnsverkfræði, leit hann fyrst og fremst til þeirra atvinnumöguleika sem voru til staðar í faginu á þeim tíma. „Þetta var nú mjög einfalt, við vissum ekkert hvað við vorum að fara út í. Ég ætlaði mér aldrei í langskólanám, ég ætlaði að hætta eftir Verslunarskólann og fara að vinna. Mér gekk frekar vel í skólanum þannig að þetta varð ofan á. Þá fer maður að skoða vinnumöguleika. Þá kom mönnum saman um að það væri helst að það vantaði rafmagnverkfræðinga á þessum árum,“ bætir Egill Skúli við.

Þegar Egill Skúli kom heim til Íslands í febrúar 1954 var enga vinnu að fá, ekki fyrr en hann var ráðinn til Orkumálastofnunar um haustið. Hann segir að laun verkfræðinga hafi verið ákaflega lág á þessum tíma. „Sem dæmi, loksins þegar ég var ráðinn til Orkumálastofnunar, þá voru mín mánaðarlaun lægri heldur en laun sem pabbi hafði,“ segir Egill Skúli en þá voru foreldrar hans fluttir til Reykjavíkur og vann pabbi hans sem verkamaður á svokölluðum iðjutaxta.

Stéttarfélag verkfræðinga var stofnað á fyrsta árinu sem Egill Skúli starfaði heima á Íslandi eftir útskrift í Danmörku. Hann hafði ekki unnið lengi þegar verkfræðingar fóru í verkfall. Það stóð yfir í eitt ár og að því loknu voru verkfræðingar ráðnir aftur til starfa með talsvert hærri laun. Eftir verkfallið hélt hann áfram að vinna hjá Orkumálastofnun undir stjórn Jakobs Gíslasonar forstjóra en síðar hjá Rafmagnsveitum ríkisins (RARIK) undir stjórn Eiríks Briem.

Hírðist í kofaskrifli í Reiðhjallavirkjun í þrjá mánuði

Rafmagnsdeild RARIK sá um tæknivinnu og uppsetningu véla og búnaðar í Reiðhjallavirkjun í samvinnu við framleiðanda. „Virkjanirnar komu í framhaldi af vöruskiptasamningi sem gerður var eftir fyrri heimstyrjöld við Tékkóslóvakíu. Vélarnar höfðu sumar lengið lengi ónotaðar hér á landi þegar farið var í framkvæmdir við virkjanirnar,“ útskýrir hann.

„Þegar fór að nálgast gangsetningu í Reiðhjallavirkjun sótti ég um að fá að vera þar síðustu mánuðina. Það varð úr að ég fékk að fara og fór fyrst í desember 1957. Við fórum aftur eftir áramótin og áttum að vera í viku á meðan það var verið að koma vélinni í rekstur en komum svo heim í mars,“ segir Egill Skúli.

Hann hírðist í kofaskrifli inn við Reiðhjallavirkjun ásamt sjö öðrum mönnum. Sofið var í kojum á tveimur hæðum, breiddin á kofanum var tvær og hálf koja og dvöldu mennirnir átta við þennan kost í þrjá mánuði.

Þremur mánuðum síðar var prófunum og stillingum lokið og svipuð staða var komin upp í Mjólkárvirkjun, greinilegt var að tafir yrðu á gangsetningu þar. „Fór ég ásamt fleirum í Mjólkárvirkjun og var við gangsetningu og prófanir alveg fram á rekstrarstig. Síðan var ég ráðinn rafveitustjóri RARIK á Vestfjörðum og bjó á staðnum í Mjólkárvirkjun fyrsta árið sem hún var í rekstri,“ segir Egill Skúli.

Árið 1961 ákváðu Stéttarfélag verkfræðinga og Verkfræðingafélagið að fara aftur í verkfall. „Það var ekki hægt annað en að taka þátt í því,“ segir Egill Skúli. Hann var þá fluttur til Flateyrar á Vestfjörðum ásamt fjölskyldu sinni og fóru þau öll suður aftur.

Áður en hann fór í verkfall og flutti suður hafði komið upp bilun í annarri vatnsvélinni í Fossárvirkjun á Ísafirði og bað Jón Gestsson, rafveitustjóri þar, Egil Skúla um að aðstoða sig við að leita að ástæðu bilunarinnar. „Við fórum að leita og eftir nokkra vinnu þóttist ég finna út að það væri gölluð einangrun í raflinum, blikkinu, ekki rafmagnsleiðurunum,“ útskýrir Egill Skúli.

„Vélin var send til Danmerkur, það þurfti að rífa hana alla í sundur og endurgera alla einangrunina á milli blikkplatnanna og á meðan það er í gangi þá byrjar þetta verkfall,“ segir Egill Skúli.

Í lok októbermánaðar lést Jón á sviplegan hátt í slysi í Skutulsfirði. Egill Skúli var beðinn um að koma til baka vestur, enda var hann kunnugur vélinni úr Fossárvirkjun sem var á leiðinni til baka til Íslands. Hann fékk undanþágu frá verkfallinu, hélt aftur vestur á firði og tók við starfi Jóns sem rafveitustjóri á Ísafirði og þá jafnframt rafveitu RARIK þangað til að hann hélt aftur suður 1964.

Stofnaði Rafteikningu og vann allan sólarhringinn

Egill Skúli vann áfram hjá Rafmagnsveitum ríkisins (síðar RARIK) og var yfirverkfræðingur þar. Ákvað hann árið 1964 ásamt vinnufélaga sínum, Guðmundi Jónssyni rafmagnseftirlitsmanni, að stofna ráðgjafafyrirtæki, Rafteikningu.

„Það vildi svo til að félagar mínir úr skóla voru búnir að stofna félagið Fjarhitun eftir verkfallið. Þeir voru búnir að koma sér upp húsnæði og við sömdum við þá um að fá að vera í húsnæðinu með þeim og þannig myndum við vinna saman. Vorum við þar fyrstu árin sem Rafteikning starfaði, í Álftamýri. Ég vann áfram hjá RARIK en allar nætur og helgar hjá Rafteikningu. Kaupið var svo lágt, við vorum þá með sjö þúsund krónur á mánuði eftir seinna verkfallið sem stóð líka í ár,“ segir hann.

Síðasta verkefni hans hjá RARIK var að vinna að undirbúningi og við framkvæmdi við Smyrlabjargarárvirkjun sem var gangsett 1969 en sama ár sagði hann upp störfum. Skömmu síðar var hann ráðinn til Landsvirkjunar.

Þegar ákveðið var að fara að virkja í Búrfelli segir Egill Skúli að það hafi komið svolítil hreyfing á verkfræðinga og spenna hafi verið í loftinu. Maðurinn sem hafði stjórnað framkvæmdunum við vélar og búnað fyrir verktakann í Búrfelli taldi sig vera kominn í sterka stöðu og gerði launakröfur sem var hafnað. Hann sagði sig í kjölfarið frá verkinu og var ekki tími til að leita mikið að öðrum. Í kjölfarið var Egill Skúli boðaður á fund hjá Landsvirkjun.

„Eiríkur Briem, framkvæmdastjóri Landsvirkjunar og Páll Sigurjónsson, forstjóri Ístaks kölluðu mig á fund. Þeir vissu að ég hafði mikið verið í vinnu á virkjunarsvæðum. Vinna við Smyrlabjargarárvirkjun var að ljúka og ég var beðinn um að hlaupa strax inn í vinnuna í Búrfelli. Eiríkur gat ráðið því að ég færi úr því starfi sem ég var nýbyrjaður í þá og fór ég með tveggja eða þriggja daga fyrirvara í Búrfell, til að vinna með verktakanum,“ rifjar hann upp.

Lét hendur standa fram úr ermum í Búrfelli

Hann segir að honum hafi mætt skrýtið andrúmsloft í Búrfelli 1969. Þar voru verktakar frá þremur fyrirtækjum; sænsku, þýsku og dönsku. Þegar hann fór að setja sig inn í stöðu mála kom í ljós að útlendingarnir sem að vélbúnaðinum komu höfðu afar litla trú á íslenskum iðnaðarmönnum. „Þeir sögðu að þeir gætu tekið upp vörur en ekki annað. Þetta fór svakalega illa í mig, satt að segja, því ég var búinn að vinna með íslenskum iðnaðarmönnum í þremur virkjunum og vissi hvers þeir voru megnugir.“

Hópnum tókst að koma fyrstu vélinni sem var vél númer tvö í húsinu með örlítilli seinkun. Allar þrjár vélarnar voru komnar í gang innan tímamarka, hvað varðar afhendingu til álverksmiðjunnar. Áður hafði verið ákveðið að bíða með frekari stækkun í Búrfelli en þegar fyrsta áfanga var lokið kom í ljós að orkuþörfin var meiri en fyrstu tölur höfðu sýnt. Var Agli Skúla þá falið stjórn stækkunarinnar.

„Eiríkur Briem, forstjóri Landsvirkjunar, hann bar fullt traust til okkar og studdi okkur vel. Ég fékk að ráða mína menn og ég réði auðvitað alla Íslendinga sem voru taldir óhæfir. Það gafst vel, það hafði sjaldan gengið jafn hratt að koma upp þremur vélum,“ segir hann.

Að lokinni stækkun í Búrfelli var hann beðinn um að fara í Sigöldu sem staðarverkfræðingur árin 1973 og 1974 og vann síðan hjá Rafteikningu til 1978.

Þegar Alþýðuflokkur, Framsóknarflokkur og Alþýðubandalag náðu meirihluta í borgarstjórnarkosningum árið 1978 réðu flokkarnir Egil Skúla í starf borgarstjóra. Hann var borgarstjóri í til ársins 1982 þegar Sjálfstæðisflokkurinn komst aftur í meirihluta og Davíð Oddsson settist í stól borgarstjóra.

Egill Skúli sinnti starfi borgarstjóra Reykjavíkur eitt kjörtímabil og segir hann að leitað hafi verið hans vegna þess að hann hafði reynslu af stórum verkum. Ekki var um pólitíska ráðningu að ræða.

Þegar hann hætti sem borgarstjóri, var hann beðinn að taka að sér að fara í vinnu fyrir fyrirtæki sem átti að stofna, Kísilmálmvinnsluna á Reyðarfirði. Vegna ósamkomulags við stjórn þar hætti Egill Skúli eftir um það bil eitt ár. Eftir að hann hafði lokið störfum sínum í Kísilmálmvinnslunni á Reyðarfirði fór hann alfarið til Rafteikningar.

Síðasta verk hans hjá fyrirtækinu var starf byggingarstjóra við Þjóðarbókhlöðuna og vann hann við það í fjögur ár, eða þangað til að hann var 74 ára. Þegar Egill Skúli lauk störfum unnu hátt í fimmtíu manns hjá Rafteikningu og hafði Gunnar Ingi Gunnarsson, ráðgjafi hjá Verkís, tekið við sem forstjóri.

„Ég sagði alltaf þegar ég var í rekstrinum, framkvæmdastjóri á ekki að vera meira en 60 ára, þá á að skipta, hann á ekki að standa í almennu daglegu stressi alla daga. Ég fór nokkurn veginn eftir því,“ segir Egill Skúli.

Vinnuáætlun fyrst og fremst tæki sem á að nota á verkstað

Jakobs Gíslasonar, orkumálastjóri og yfirmaður Egils Skúla hjá RARIK, sinnti formennsku í Stjórnunarfélagi Íslands og fylgjast vel með því sem var efst á baugi í þeim málaflokki. Jakob lét Egil Skúla fá bækur um stjórnun og bað hann að sækja alþjóðlega ráðstefnu um stjórnunarstörf í Vínarborg árið 1967. Þetta leiddi til þess að hann fór að taka að sér verkefni fyrir félagið og kenndi hann CPM-áætlanagerð á vegum Stjórnunarfélags Íslands árin 1967 – 1978 og hefur samið greinar og erindi um orkumál og siðfræði.

Þess má geta að Egill Skúli hefur einnig sinnt fjölmörgum félags- og trúnaðarstörfum í gegnum tíðina. Egill Skúli sat í stjórn Verkfræðingafélags Íslands árin 1964 – 1966 og 1972 – 1974 og var formaður árin 1978 – 1980. Hann var formaður stéttarfélags Verkfræðinga 1967 – 1969, sat í stjórn Ljóstæknifélag Íslands árin 1985 – 1990 og var formaður þar 1990 – 1994. Hann var formaður Lagnafélags Íslands, formaður Gæðamatsráðs frá stofnun þess 1986 til 2016. Árið 1983 var stofnað félag velunnara Borgarspítalans og var hann formaður þar þangað til félagið var lagt niður árið 2009.

„Auðvitað voru virkjanirnar alveg stórkostleg verkefni, að fá að taka þátt í. Tvímælalaust þar sem maður fékk faglegu reynsluna,“ segir hann en kennsla stjórnunar er ekki síður eftirminnilegt að hans mati. Egill Skúli rifjar upp verkefni sem hann segir það skemmtilegasta sem hann kom að hvað varðar stjórnun. Þá hafði forstjóri Landsmiðjunnar keypt olíutanka í Hvalfirði sem átti að setja upp.

„Hann bauð í þetta ásamt öllum öðrum smiðjum og var með lægsta boðið og fékk mikla gagnrýni á ýmsum stöðum. Menn sögðu að þetta væri svona með þessar ríkisstofnanir, það þyrfti ekkert að hugsa um tap, það færi bara á ríkiskassann. Þetta sveið honum mjög. Hann vissi að ég hefði verið að kenna stjórnun og skipulagningu og spurði hvort hægt væri að líta á þetta. Auðvitað var það hægt,“ segir hann.

Hann fékk alla verkstjóra smiðjunnar til sín á námskeið fjórar helgar. „Fyrstu dagarnir voru mjög skemmtilegir. Þeim fannst greinilega voða skrýtið, þessum stóru og sterku körlum, að fá þarna skrifstofublók utan úr bæ til að segja þeim hvernig ætti að sjóða stál og vinna með stál.“

Egill Skúli hófst handa við að útskýra vinnuáætlanir fyrir mönnunum. Þriðju helgina var hann kominn út í horn og mennirnir komnir á fullt við að ákveða hvernig þeir myndu vilja hafa vinnuáætlanir fyrir verkefnið. Þeir höfðu náð tökum á efninu.

„Sumir vita ekki alveg til hvers vinnuáætlun er gerð. Fyrst og fremst er áætlunin tæki sem á að nota á vinnustað og er þar. Fylgst með í gegnum áætlunina hvort þú stendur þig eða ekki. Þá þarf að raða verkum upp á þann máta að það sé hægt að fylgjast með því sem er að gerast á vinnustað og því sem er skrifað á blaðið,“ útskýrir hann.

Þegar hann hófst handa með mönnunum taldi hann að hálfur dagur væri viðráðanleg tímaeining, bæði til að fylgjast með og til að gera áætlunina nógu nákvæma. Mennirnir komust að annarri niðurstöðu. „Þegar þeir kláruðu áætlunina á fjórðu helginni var vinnuáætlunin sem þeir nýttu og vildu fylgjast með hálfur klukkutími. Út úr þessu var ákveðið hversu stór vinnuhópurinn yrði og hvernig þeir ynnu. Þeir röðuðu þessu upp og fengu aldrei einn einasta dauðan tíma á neinn mann og stórgræddu sem betur fer á verkinu.“

„Þetta var mjög gaman að því leyti af því að þá sá maður hve mikils virði er að þeir sem eiga að vinna eftir áætlunum þekki þær vel. Mennirnir gerðu mikinn hluta áætlunarinnar þó að ég segði þeim hvernig þeir ættu að fara að. Ég hafði mjög gaman að þessu,“ segir Egill Skúli.

Þegar hann er beðinn um líta til framtíðar innan verkfræðinnar hefur hann þetta um málið að segja.

„Mér sýnist núna að hugvitið sé það sem allt verður byggt á en það sé líka mikil þörf fyrir mannleg samskipti til þess að geta nýtt það. Maður heyrir dæmi um að það sé ekki hlustað nógu mikið á það sem fólk sér og veit. Ég held að stjórnun eigi meira og meira eftir að færast inn á það að ná til allra, það gengur ekki að hafa bara einn stóran stjórnanda,“ segir Egill Skúli.

Egill Skúli Ingibergsson lést 22. desember 2021, 95 ára gamall. 

Verkís rekur uppruna sinn til ársins 1932. Verkís var stofnað 21. nóvember 2008 en þá runnu saman fjögur fyrirtæki: VST-Rafteikning hf., Fjarhitun hf., Fjölhönnun ehf. og RT ehf. – Rafagnatækni. Áður höfðu VST – Rafteikning sameinast úr Verkfræðistofu Sigurðar Thoroddsen, sem var elsta verkfræðistofa landsins og Rafteikningu hf. Í apríl 2013 sameinuðust Verkís og Almenna verkfræðistofan undir nafni Verkís. 

Viðtalið var tekið og unnið af Láru Höllu Sigurðardóttur, starfsmanni í kynningarmálum hjá Verkís, með það að markmiði að varðveita sögu fyrirtækisins og safna saman fróðleiksmolum frá fyrri tíð.

Viðtal: Sigþór lagði hönd á plóg við orkuskipti heimilanna

Sigþór Jóhannesson, starfsmaður Fjarhitunar.

Viðtal: Lagði mikla áherslu á að mynda traust sambönd innan verkfræðinnar og viðhalda þeim

Svavar Jónatansson, einn af stofnendum Almennu verkfræðistofunnar.

Viðtal: Egill Skúli
Egill Skúli