18/05/2020

Greiða leiðina að orkuskiptum í höfnum

Greiða leiðina að orkuskiptum í höfnum
Fiskiskip

Greiða leiðina að orkuskiptum í höfnum. Á föstudaginn úthlutaði umhverfis- og auðlindaráðherra tíu styrkjum til rafvæðingar hafna víðs vegar um landið, samtals 210 milljónum. Verkefnið er hluti af fjárfestingaátaki ríkisstjórnarinnar vegna Covid-19 heimsfaraldursins.

Einnig var undirrituð viljayfirlýsing um að taka í notkun háspennubúnað fyrir flutningaskip við Sundabakka og Vogabakka í Reykjavík.

Skip þurfa ekki aðeins orku þegar þeim er siglt um heimsins höf, mörg þeirra þurfa einnig rafmagn þegar þau liggja við bryggju. Verkís hefur tekið að sér fjölmörg verkefni sem snúa að landtengingum skipa.

Hér eru nokkur þeirra verkefna:

  • Greining á aflkerfi Norðurorku
    Norðurorka vildi vita hversu mikið afl þau gætu afhent niður á hafnarsvæði á Akureyri. Greining á aflgetu Norðurorku. Þrjá 3 MW tengingar og ein 18 MW tenging. Kostnaðaráætlun fyrir þessar tengingar.
  • Kleppsbakki, Reykjavík
    Frumhönnun á lágspennu og háspennu landtenginga fyrir fraktskip. Hönnun brunna og lagnaleiðakerfis fyrir framtíðar lágspennu og háspennu landtengingar.
  • Tangabryggja, Akureyri 
    Hönnun á 250 kVA lágspennulandtengingu með 350 A stöðluðum tengli á 440 V og 50 Hz. Hönnun á lagnaleiðum og brunnum fyrir framtíðar lágspennu og háspennulandtengingu upp á allt að 3,5 MVA.
  • Faxagarður og Austurbakki, Reykjavík
    Hönnun rafdreifikerfis fyrir skip sem eiga að geta tengst 1,5 MVA afli á lágspennu. Gert með 4 x 350 A stöðluðum tenglum og tengingum. Breytileg tíðni 50-60 Hz og spennukerfi 440-690 V.

Í fyrirlestri Kjartans Jónssonar, rafmagns- og rekstrariðnfræðings á Orkusviði Verkís, á Sjávarútvegsráðstefnunni á síðasta ári sagði hann að næstu skref stærri landtenginga hér á landi væru að skoða aflgetu hafna, aflþörf skipanna og vinna að því að styrkja orkuflutning á helstu hafnir landsins. Leggja ætti áherslu á að bjóða stærri íslenskum skipum landtengingar sem hafa ekki fengið nægt afl hingað til, t.d. nýjustu fiski- og fraktskip íslenska flotans.

Þá sagði hann einnig að það þyrfti að skoða þau skip sem koma oft á ári í sömu höfn á sama stað. Það auðveldar uppbyggingu landtengingar ef aflþörf og tenging er þekkt á milli skips og bryggju. Skipafélög og hafnir ættu að koma sér saman um að taka upp staðlaða tengla því þá eru allir með sömu tenginguna, hvar sem er á landinu sem einfaldar málin.

Styrkirnir sem umhverfis- og auðlindaráðherra úthlutaði á föstudag greiða sannarlega leiðina að orkuskiptum í höfnum landsins og fagnar Verkís þessu stóra skrefi.

Nánar um landtengingar hafna hjá Verkís

Frétt stjórnarráðsins: Stórt skref stigið í rafvæðinguhafna í Reykjavík
Frétt stjórnarráðsins: Úthlutun styrkja til orkuskipta í höfnum 

Greiða leiðina að orkuskiptum í höfnum
Fiskiskip