24/03/2020

Verkís hannar loftræsikerfi fyrir Landspítalann vegna COVID-19

Verkís hannar loftræsikerfi fyrir Landspítalann
Birkiborg Landspítali

Verkís hannar loftræsikerfi fyrir Landspítalann. Í dag verður tekin í notkun ný göngudeild við Landspítalann í Fossvogi. Þar mun dvelja fólk sem er smitað af COVID-19 veirunni og er of veikt til að vera heima en þó ekki nógu veikt til að vera lagt inn á spítalann. Um er að ræða Birkiborg, húsnæði Landspítalans í Fossvogi. Verkís hannaði loftræsikerfi fyrir göngudeildina og einnig fyrir gáma sem nýlega var komið fyrir við bráðamóttökuna.

Að undanförnu hafa nokkrar breytingar verið gerðar á húsnæði Landspítalans vegna COVID-19 og er göngudeildin og gámarnir hluti af þeim.

Í Birkiborg verður teymi heilbrigðisstarfsfólks og þar verður hægt að sinna einföldum meðferðum, líkt og að taka röntgenmyndir og taka blóðsýni. Jón Hilmar Friðriksson, framkvæmdastjóri þjónustusviðs Landspítalans, sagði í kvöldfréttum RÚV á föstudag að kosturinn við húsnæðið væri  að það er nálægt spítalanum en um leið ekki tengt honum, enda eigi sýkt fólk ekki að fara inn á spítalann nema brýn nauðsyn sé til.

Þá hafi ekki þurft að fara í stórar framkvæmdir, heldur setja upp létta veggi og loftræsingu sem hæfir í einangrunarstofum. Til að byrja með verða fjórar stofur opnar en mögulegt er að bæta fleirum við. Vinna við hönnun og breytingar hófst síðla fimmtudags 19. mars og áttu stofurnar vera tilbúnar að taka við sjúklingum á mánudegi 23. mars. Því þurfti sannarlega að ganga vasklega til verks.

Gámarnir við bráðamóttökuna gagnlegir

Þegar útbreiðsla COVID-19 hófst var ljóst að gera þurfti ráðstafanir á spítalanum svo fólk sem þangað leitaði, sem grunur léki á að væri smitað, blandaðist ekki öðrum á spítalanum. Gámi var komið upp við hlið bráðamóttökunnar í seinni hluta febrúar og öðrum bætt við í byrjun mars. Í gámunum hefur farið fram fyrsta mat og meðferð fólks og sýni tekin þar svo fólkið þurfi ekki að fara inn á spítalann. Sumir sem hafa reynst smitaðir af veirunni hafa þurft að leggjast inn á sjúkrahús en flestir dvelja heima hjá sér á meðan veikindin ganga yfir.

Ragnar Freyr Ingvarsson, læknir sem fer fyrir COVID-19 teymi Landspítalans sagði í samtali við Vísi að göngudeild vegna COVID-19 hefði tímabundið verið rekin í gámastæði við Landspítalann í Fossvogi og hún hefði reynst ótrúlega vel.

„Ég veit að það hefur verið dálítið mikið hlegið að þessum gámum en þeir hafa reynst ótrúlega gagnlegir. Bæði þeir sjúklingar sem eru út frá sögu sinni og einkennum grunaðir um COVID-19 smit og líka þeir sem koma inn bráðveikir með COVID-19 smit. Þannig getum við tekið örugglega á móti þeim í gám og flutt með öruggum hætti án þess að útsetja starfsmenn inn á deildir eða gjörgæslu eins og það hefur þurft.“

Verkís grunnhannaði loftræsikerfi fyrir gámana auk þess að fara yfir val á búnaði fyrir loftræsinguna í samstarfi við verktaka. Hafa þurfti hraðar hendur til að koma aðstöðunni sem fyrst í notkun. Hafði það meðal annars þau áhrif að eingöngu var hægt að velja þann búnað í gámana sem var til á lager í landinu.

Loftræsingin í gámunum vinnur þannig að útloft er tekið inn í innblásturssamstæðu. Þar er loftið hitað upp og síað á hefðbundinn hátt. Innblástursloftið þar næst leitt í gegnum gámeininguna og sogað út í hinum enda gámsins. Miklar kröfur eru gerðar til síunnar á útsogsloftinu en þar er notuð svokölluðu HEPA (e. High efficiency particule absorbing) sía. Að lokum er útsogsloftinu beint í kastháf sem beinir loftstraumum beint upp í andrúmsloftið til að lágmarka líkur á að utanaðkomandi aðilar komist í „snertingu“ við útkastloftið frá gámnum.

Umfjöllun Landspítalans um opnun göngudeildarinnar .

Frétt RÚV: Birkiborg breytt í göngudeild fyrir COVID-sjúklinga
Frétt Vísis: Leiðtogi COVID-teymis Landspítalans ætlar að vera búinn undir svartsýnustu spár
Frétt RÚV: Annar gámur við bráðamóttöku vegna COVID-19

Verkís hannar loftræsikerfi fyrir Landspítalann
Birkiborg Landspítali