Ný áætlun Uppbyggingarsjóðs EES kynnt í Póllandi
Ný áætlun Uppbyggingarsjóðs EES kynnt í Póllandi. Þorleikur Jóhannesson, vélaverkfræðingur á Orkusviði Verkís og Haukur Þór Haraldsson, viðskiptastjóri á Samgöngu- og umhverfissviði Verkís, sóttu fyrr í þessum mánuði ráðstefnu í Varsjá í Póllandi þar sem ný áætlun Uppbyggingarsjóðs EES um endurnýjanlega orku, umhverfis- og loftlagsmál var kynnt.
Verkís hefur mikla reynslu af því að aðstoða lönd sem eru að skipta yfir í endurnýjanlega orkugjafa, meðal annars í Póllandi. Sjóðurinn mun styrkja verkefni af því tagi og mun Verkís leggja til sérfræðiþjónustu með áherslu á hitaveitu og aðra innviði.
Þetta er í fyrsta skipti sem slík áætlun á sviði endurnýjanlegrar orku er sett í framkvæmd í Póllandi, en unnið hefur verið að undirbúningi og skipulagningu áætlunarinnar í nokkur ár á milli Uppbyggingarsjóðs EES, Póllands, Noregs og Íslands, sem Orkustofnun hefur annast fyrir hönd landsins.
Í áætluninni er lögð áhersla á að vinna gegn hlýnun jarðar vegna loftslagsbreytinga ásamt aðlögun og verndun umhverfisins og vistkerfa, m.a. með sérstaka áherslu á aukna nýtingu endurnýjanlegrar orku. Verkefnið í Póllandi er jafnframt það stærsta á sviði endurnýjanlegrar orku og loftlagsmála sem Ísland tekur þátt í á alþjóðlegum vettvangi.
Eitt af helstu markmiðum Uppbyggingarsjóðs EES á sviði endurnýjanlegrar orku er að draga úr losun á gróðurhúsalofttegundum í viðkomandi löndum. Aðstoð Íslands við nýtingu endurnýjanlegrar orku, ekki síst hitun húsa með jarðvarma, getur haft mikil áhrif í þessum löndum, þar sem hús eru oft hituð upp með kolum, bæði einstök hús og einnig stór dreifikerfa.
Afar mikilvæg verkefni eru framundan í endurnýjun hitaveitna í Póllandi til að draga úr notkun kola sem er mikil og auka notkun endurnýjanlegrar orku sem er líklega eitt af stærri verkefnum á sviði loftlagsmála í Póllandi. Með þessum verkefnum getur Ísland því aðstoðað við að draga verulega úr notkun jarðefnaeldsneytis og þar með losun gróðurhúsalofttegunda sem gagnast öllum löndum óháð landamærum.
Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, ávarpaði ráðstefnuna og var það liður í opinberri heimsókn hans og Elizu Reed forsetafrú til Póllands. Í pistli hans um heimsóknina sagði hann meðal annars:
„Þó nefni ég hér sérstaklega að í heimsókninni var lögð sérstök áhersla á möguleika á auknu samstarfi við nýtingu jarðvarma í Póllandi. Á því hafa Pólverjar mikinn áhuga enda er þeim nauðsynlegt að brenna færri kolum, ætli þeir sér að ná eigin markmiðum um kolefnisjöfnun. Við Duda Póllandsforseti ávörpuðum ráðstefnu Uppbyggingarsjóðs Evrópska efnahagssvæðisins um umhverfis-, orku- og loftslagsmál og vonandi verða frekari skref stigin í þessum efnum á næstu árum.“
Ráðherra loftslagsmála Michał Kurtyka og ráðherra þróunarsjóðs og byggðamála, Małgorzata Jarosińska Jedynak frá Póllandi kynntu verkefnið á ráðstefnunni og fluttu ávörp, ásamt Lilju Alfreðsdóttur ráðherra menntamála, vísinda og menningar frá Íslandi, auk sendiherra Noregs í Póllandi Olav Myklebust.
Ljósmynd: Þorleikur Jóhannesson er fjórði frá vinstri, Haukur Þór Haraldsson er fimmti frá hægri.