Verkís vinnur aðalskipulag Dalabyggðar
Verkís vinnur aðalskipulag Dalabyggðar. Tilgangurinn með endurskoðun aðalskipulagsins er að aðlaga það að breyttum forsendum og skapa heildstæða umgjörð svo hægt verði að takast á við nýjar og krefjandi áskoranir.
Með því að marka skýra og raunhæfa stefnu sveitarstjórnar í þessum málaflokki skapast vettvangur samvinnu og sáttar við íbúa og hagsmunaaðila um mikilvæg viðfangsefni í sveitarfélaginu.
Aðalskipulag er stefnuyfirlýsing sveitarstjórnar um þróun byggðar í sveitarfélaginu, landnotkun, umhverfismál, samgöngu- og þjónustukerfi til minnst 12 ára. Sveitarstjórn ber ábyrgð á gerð og endurskoðun aðalskipulags.
Heildarendurskoðun aðalskipulags Dalabyggðar er í samræmi við áherslur sveitarstjórnar og leggur hún m.a. til að sérstaklega verði mörkuð stefna um nýtingu og eftir atvikum vernd landbúnaðarlands í aðalskipulagi Dalabyggðar.
Einnig að tekið verði saman yfirlit yfir helstu auðlindir í sveitarfélaginu, sem tekur m.a. til neysluvatns og vindorku. Gerð verði úttekt á mögulegum vindorkusvæðum m.t.t. byggðar, ásýndar og hljóðvistar og hvort slík vinnsla sé möguleg innan sveitarfélagsins.
Fyrsti áfanginn í verkefninu er gerð skipulags- og matslýsingar og greining á landbúnaðarlandi.
Sveitarfélagið Dalabyggð nær yfir alla Dalasýslu og Skógarstrandarhrepp í Snæfellsnessýslu, þ.e. frá botni Álftafjarðar innan Stykkishólms að Gilsfjarðarbotni. Sveitarfélagið er 2421 km2 að stærð og 1. janúar 2019 voru íbúar 673.