27/11/2019

Vill efla starfssemi Verkís á Vesturlandi

Vill efla starfssemi Verkís á Vesturlandi
Anna María Þráinsdóttir útibússtjóri

Vill efla starfssemi Verkís á Vesturlandi. Anna María tók við sem útibússtjóri Verkís á Vesturlandi um síðastliðin mánaðarmót. Hún er spennt fyrir nýja verkefninu og lítur björtum augum til framtíðar.

Hér má sjá viðtalið í Skessuhorni í heild sinni: 

Anna María Þráinsdóttir byggingaverkfræðingur tók við sem útibússtjóri Verkís á Vesturlandi 1. nóvember síðastliðinn. Anna María tekur við starfinu af Gísla Karel Halldórssyni, sem verður sjötugur á næsta ári og er farinn að minnka við sig, en er þó hvergi nærri hættur, að sögn Önnu.

Starfsemi Verkís á Vesturlandi nær til landshlutans alls og lítur einkum að eftirliti með byggingaframkvæmdum, hvers kyns hönnun og annarri almennri verkfræðiráðgjöf. Sex fastir starfsmenn Verkís starfa í landshlutanum; þrír á Akranesi og þrír í Borgarnesi. Útibúið er þannig í reynd starfrækt á tveimur stöðum.

„Við erum staðsett bæði á Akranesi og í Borgarnesi og þannig verður það áfram. Slíkt mun ekki breytast með tilkomu nýs útibússtjóra,“ segir Anna María í samtali við Skessuhorn. „Frekar horfum við til þess að geta með tíð og tíma fjölgað fólki og erum opin fyrir því að opna aftur skrifstofu á Snæfellsnesi, eins og við vorum með í Stykkishólmi, ef sá möguleiki verður fyrir hendi,“ bætir hún við.

Vilja fjölga verkefnum og fólki

Anna María lauk BS prófi í tæknifræði frá Háskólanum í Reykjavík árið 2011 og meistaraprófi í byggingaverkfræði með áherslu á framkvæmdastjórnun tveimur árum síðar. Hún starfaði hjá Verkfræðistofu Suðurnesja frá 2015 þangað til í febrúar að hún hóf störf hjá Verkís á Vesturlandi.

„Ég er búin að starfa mikið við eftirlit alveg frá því ég byrjaði að vinna sem verkfræðingur. Meðal annars var ég við eftirlit við stækkun flugstöðvarinnar á Keflavíkurflugvelli. Það var mjög spennandi og skemmtilegt verkefni, enda gríðarlega stór og mikil framkvæmd,“ segir Anna María. „Síðan byrjaði ég hjá Verkís síðasta vetur og þegar starf útibússtjóra var auglýst ákvað ég að sækja um og fékk,“ segir hún.

Og hvernig leggst nýjast starfið í hana?

„Það leggst virkilega vel í mig. Þetta er krefjandi verkefni og margt sem ég hef þurft að setja mig inn í og læra betur, til dæmis það sem snýr að daglegum rekstri útibúsins og eins verkefnaöflun,“ segir Anna María. „Starfið hefur gengið vel síðustu ár samhliða mikilli uppbyggingu. En maður finnur alveg að það er aðeins rólegra yfir öllu núna en verið hefur. Engu að síður er markmiðið að fjölga verkefnum og helst viljum við geta fjölgað starfsfólki hér í landshlutanum með tímanum. Við höfum mikinn metnað fyrir því,“ segir Anna María Þráinsdóttir að endingu.

Frétt Skessuhorns: Anna María er nýr útibússtjóri Verkís á Vesturlandi 

Vill efla starfssemi Verkís á Vesturlandi
Anna María Þráinsdóttir útibússtjóri