Íþróttahús við grunnskóla byggt tvær hæðir niður í jörðina
Íþróttahús við grunnskóla byggt tvær hæðir niður í jörðina. Fyrr á þessu ári tóku nemendur og starfsfólk Uranienborg skóla í Osló í Noregi nýtt fjölnota íþróttahús í notkun. Húsið, sem er á tveimur hæðum, er að öllu leyti neðanjarðar og nær um 13,5 m undir yfirborð.
Verkís sá um berg- og jarðtæknilega hönnun og ráðgjöf ásamt eftirliti á því fagsviði á byggingartíma hússins. Verkkaupi Verkís var verktakinn Veidekke sem fékk verkefnið í alútboði fyrir Undervisningsbygg Oslo KF.
Íbúum Osló fer sífellt fjölgandi og samhliða því hefur nemendum Uranienborg grunnskólans fjölgað. Ljóst var að fjölga þyrfti kennslustofum og stækka íþróttasalinn til að mæta eftirspurn. Aftur á móti var ekki mikið rými til að stækka skólann á lóðinni og því var gripið til þess ráðs að byggja íþróttahús neðanjarðar.
Að byggingu hússins lokinni var leiksvæði skólans endurbyggt ofan á húsinu í svipaðir mynd og verið hafði fyrir byggingu þess.Heildarflatarmál íþróttahússins er 2.816 m². Á daginn er íþróttahúsið nýtt fyrir 850 nemendur skólans en á kvöldin og um helgar til annarrar íþróttaiðkunar. Hægt er að skipta íþróttahúsinu í þrjú rými.
Fjallað var um verkefnið í vef- og prentútgáfu Byggeindustrien. Þar kemur fram að byggingarferlið hafi gengið vel og smíði hússins hafi lokið fjórum mánuðum á undan áætlun. Þar segir að það hafi verið ákveðin áhætta fólgin í því að sprengja svona langt niður í jörðina, í ljósi nálægðar við skólabygginguna, Uranienborg kirkju og aðrar byggingar í nágrenninu.