Orkuskipti ekki kvöð heldur tækifæri
Orkuskipti ekki kvöð heldur tækifæri. Í nýjasta tölublaði Sóknarfæris, þar sem áhersla er lögð á frumkvæði og fagmennsku í íslensku atvinnulífi, er viðtal við Bjarna Frey Guðmundsson, rafmagnsverkfræðing hjá Verkís. Þar ræðir hann um orkuskipti fyrirtækja.
Hér má sjá viðtalið í heild sinni:
Útreikningar Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands benda til að orkuskipti í vegasamgöngum borgi sig með beinum hætti fyrir þjóðfélagið jafnvel án þess að telja loftlagsávinninginn með. Bjarni Freyr Guðmundsson, rafmagnsverkfræðingur sem sinnir viðskiptaþróun Verkís, tekur undir þetta og segir orkuskipti ekki lengur kvöð fyrir fyrirtæki, heldur tækifæri.
„Við hjá Verkís sjáum fram á hagræðingu í rekstri hjá fyrirtækjum með orkuskiptum og jafnvel þó að fjárfestingin sé töluverð í upphafi, þá er um langtímahagræðingu að ræða,“ segir Bjarni Freyr í samtali við Sóknarfæri. Einstaklingar og húsfélög hafa í miklum mæli leitað til Verkís síðustu mánuði vegna ráðgjafar um hleðsluaðstöðu fyrir rafbíla en nú eru fyrirtæki einnig farin að taka við sér og óska eftir ráðgjöf vegna orkuskipta.
„Á Íslandi eru kjöraðstæður til að nýta innlenda og ódýra, endurnýjanlega orkugjafa. Mikil framþróun hefur orðið í fólksbílum undanfarin ár og er sú tækni að breiða sig hratt út í ökutæki og vinnuvélar sem henta rekstri fyrirtækja. Við sjáum í auknum mæli fyrirtæki með mörg atvinnutæki skoða orkuskipti fyrir alvöru. En það er að ýmsu að huga við orkuskiptum hjá fyrirtækjum og vissara að útfæra orkuskiptin eftir getu og rekstri hvers fyrirtækis,“ segir Bjarni Freyr.
Íslensk stjórnvöld hafa sett sér aðgerðaáætlun í loftlagsmálum til að tryggja að Ísland nái markmiðum Parísarsamningsins fyrir 2030. Orkuskipti í samgöngum, að hætta notkun jarðefnaeldsneytis og nýta í staðinn orku sem losar ekki gróðurhúsalofttegundir, er annað helsta áhersluatriði áætlunarinnar.
Stefnt er að því að losun frá vegasamgöngum minnki um rúmlega 35% til 2030, einkum með stórauknu hlutfalli rafbíla og annarra vistvænna ökutækja í bílaflotanum. Hóp- og vöruflutningabifreiðar eru sem dæmi mun færri en fólksbílar en eldsneytiseyðsla hverrar bifreiðar er mun meiri og vegur sú heild þungt í heildarmarkmiðum um orkuskipti. Því er ljóst að töluverðar breytingar þurfa að verða þar á næstu árum, eigi markmiðin að nást.
„Hvað þarft þú margar rútur? Hvað þarf stoppið að vera lengi svo hægt sé að hlaða? Hvað kostar innviðauppbyggingin og viðhald? Er raunhæft að reka útblásturslaust byggingarfyrirtæki? Það eru fjölmargar spurningar sem vakna hjá fyrirtækjum sem huga að orkuskiptum í sínum rekstri og við höfum verið að aðstoða fyrirtæki við að svara þeim,“ segir Bjarni Freyr.
Hann bendir á að miklir hagræðingarmöguleikar séu í rafvæðingu stærri bíla á næstu árum. Orkukostnaðurer mun lægri, viðhaldið er minna og líftíminn er að reynast töluvert lengri en áætlað var í fyrstu. Rafbílar og rútur hafa streymt inn á markaðinn og einnig hafa margir af stærstu vöruframleiðendum heims kynnt rafvörubíla af stærstu gerð sem komi á markað á næstu árum.
„Því er ekki spurning um hvort heldur hvenær fyrirtæki hér á landi stígi skrefið og fari í gegnum orkuskipti ísamgöngum,“ segir Bjarni Freyr að lokum.