02/10/2019

Nemendur í rafmagns- og tölvuverkfræði heimsóttu Verkís

Nemendur í rafmagns- og tölvuverkfræði heimsóttu Verkís
Nemendaheimsókn nemendur í Rafmagns og tölvuverkefni HÍ

Nemendur í rafmagns- og tölvuverkfræði heimsóttu Verkís. Í gær fengum við heimsókn frá nemendum í rafmagns- og tölvuverkfræði í Háskóla Íslands. Hópurinn situr þessa önnina námskeiðið Nám og störf í rafmagns- og tölvuverkfræði undir stjórn Kristins Andersen, prófessors í HÍ.

Markmið námskeiðsins er meðal annars að kynna fyrir nemendunum starfsvettvang þessa geira og þau tækifæri sem þar er að finna hjá íslenskum fyrirtækjum.

Fjórir starfsmenn Verkís tóku á móti nemendunum. Starfsfólkið á það sameiginlegt að vera ungt og hafa menntað sig á þessu sviði. Þau sögðu hópnum frá Verkís, hvaða leið þau fór í gegnum háskólann, frá verkefnum þeirra innan fyrirtækisins og hvernig er að vinna hjá verkfræðistofu. Nemendahópurinn var mjög duglegur að spyrja og eftir að hafa hlustað á erindin fékk hópurinn að skoða sig um í húsinu.

Þórður Þorsteinsson, rafmagnstæknifræðingur og meistari í rafvirkjun, flutti almenna kynningu um Verkís auk erindis um orkuskipti. Verkefni Þórðar, sem starfar á Byggingasviði, snúa aðallega orkuskiptum, til að mynda að hleðslu rafbíla. Sinnir Þórður m.a. hönnun og ráðgjöf til viðskiptavina vegna uppsetningu á hleðsluaðstöðu fyrir rafbíla.

Kristín Sól Ólafsdóttir, B.Sc. í hátækniverkfræði, flutti erindi frá sjónarhorni nýliðans en hún hóf störf hjá Verkís í sumar sem sumarstarfsmaður og er nú starfsmaður í fullu starfi á Orkusviði Verkís. Hún sagði meðal annars frá því af hverju hún valdi þessa menntun, frá verkefnum hennar síðustu mánuði og hvernig tekið er á móti nýliðum hjá Verkís.

Björn Heiðar Jónsson, rafmagnsverkfræðingur á Orkusviði Verkís, flutti erindi um raforkukerfi. Hann er einnig með sveinspróf í rafeindavirkjun. Hann sagði frá helstu verkefnum hans hjá Verkís sem tengjast rafbúnaði háspennutengivirkja, hönnun háspennustrenglagna og kerfisgreiningum.

Guðmundur V. Rögnvaldsson, rafmagnsverkfræðingur á Orkusviði Verkís, flutti erindi um stjórnkerfi. Þar sagði hann frá helstu verkefnum sínum. Hefur hann m.a. komið að Búrfellsvirkjun, Kárahnjúkavirkjun og Qorlortorsuaq á Grænlandi. Hans vinna snýr að stjórnkerfum og útskýrði hann fyrir nemendunum hvað stjórnkerfi er og í hverju vinna við þau felst.

Framundan eru vísindaferðir háskólanema og hlökkum við til að kynna fleiri nemendur fyrir Verkís.

Nemendur í rafmagns- og tölvuverkfræði heimsóttu Verkís
Nemendaheimsókn nemendur í Rafmagns og tölvuverkefni HÍ