22/10/2025

FUMÍS námskeið í Ofanleiti – fræðsla um huglægt svæðislíkan

Fjölbreytt námskeið um lykilþátt í mengunarrannsóknum haldið í höfuðstöðvum Verkís

Í síðustu viku hélt Fagfélag um mengun á Íslandi (FUMÍS) í samstarfi við Umhverfis- og orkustofnun námskeið í Ofanleiti 2, höfuðstöðvum Verkís. Námskeiðið fjallaði um gerð huglægs svæðislíkans (e. conceptual site model), sem er eitt af lykilatriðum í mengunarrannsóknum.

FUMÍS er vettvangur sérfræðinga sem starfa að málum er tengjast mengun, vöktun og úrbótum í umhverfinu. Félagið leggur áherslu á fræðslu, miðlun þekkingar og faglegt samstarf á þessu mikilvæga sviði, og eru regluleg námskeið eins og þetta hluti af því starfi.

Huglægt svæðislíkan

Á námskeiðinu var farið yfir undirstöðuatriði mismunandi módela og rætt um kosti þeirra og galla. Þátttakendur unnu einnig í hópverkefnum þar sem þeir settu saman eigið huglægt svæðislíkan byggt á raunverulegum dæmum.

Kennarar voru sérfræðingar frá Norconsult í Noregi, og var mikil ánægja meðal þátttakenda með bæði innihald og framkvæmd námskeiðsins.

Verkís hýsti námskeiðið

Erla Guðrún Hafsteinsdóttir, umhverfis- og jarðefnafræðingur hjá Verkís og formaður FUMÍS, kom að skipulagningu námskeiðsins og tók þátt í móttöku og fræðslu þátttakenda í Ofanleiti.

Það er Verkís ánægja að hafa hýst þetta námskeið og tekið þátt í miðlun þekkingar á sviði mengunarrannsókna. Slík fræðsla stuðlar að faglegum vinnubrögðum og eflingu samstarfs meðal sérfræðinga á þessu mikilvæga sviði.

Heimsmarkmið