26/08/2019

Sjóböðin á lista Time yfir 100 áhugaverðustu staði heims

Sjóböðin á Húsavík
Sjóböð GeoSea

Sjóböðin á lista Time Magazine yfir hundrað áhugaverðustu staði í heiminum til að heimsækja í ár og eru þau eini íslenski staðurinn á listanum. Verkís sá um alla verkfræðihönnun sjóbaðanna.

Í umsögn Time segir að offjölgun ferðamanna sé mikið vandamál á Íslandi en gestum sjóbaðanna gefist gott andrými til að njóta dvalarinnar. Þá segir að gestum gefist stórkostlegt tækifæri til að virða fyrir sér norðurljósin, séu sjóböðin heimsótt eftir myrkur.

Verkís sá um alla verkfræðihönnun en í því fólst meðal annars hönnun burðarþols, lagna, lýsingar, rafstýringa sem og jarðvinnu, gatnagerð og gerð bílastæða.

Það er fyrirtækið Sjóböð ehf. sem opnaði sjóböðin undir vörumerkinu GeoSea. Framkvæmdastjóri þeirra, Sigurjón Steinsson, segir í samtali við RÚV að þetta sé staðfesting á því að böðin séu einstök á heimsmælikvarða. „Við erum himinlifandi yfir þessu öllu saman og þetta er gríðarlegur heiður að hafa verið sett á þennan lista, það verður að segjast,“ segir hann.

Margir sem hafa heimsótt sjóböðin deila fallegum myndum frá ferðinni á samfélagsmiðlum, meðal annars á Instagram með myllumerkinu #geosea

Frétt RÚV: Telja sjóböðin meðal áhugaverðustu staða heims

Sjóböðin á Húsavík
Sjóböð GeoSea