Bústaðavegur – umferðarhermun
Bústaðavegur – umferðarhermun. Reykjavíkurborg bað Verkís í samstarfi við VIAPLAN um umferðargreiningu á Bústaðavegi og tillögur að úrbótum.
Tilurð verkefnisins var umferðargreining sem Verkís og VIAPLAN unnu á árunum 2016 og 2017, fyrir Vegagerðina og Samtök sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu, þar sem 37 vegamót voru umferðargreind.
Verkefnið fjallar um vegkaflann á milli Snorrabrautar og Háaleitisbrautar. Þessi vegkafli ber með sér ákveðin vandamál á háannatímum, að mestu leyti tengd umferð frá Hafnarfirði, Garðabæ og Kópavogi sem kemur inn á Bústaðaveginn frá Kringlumýrarbraut á morgnanna og fer sömu leið til baka seinni partinn. Umferðargreiningin og prófanir á úrbótum fóru fram í hermunarforritinu Vissim. Notast var við líkön úr fyrra verkefni til samanburðar og úrbætur metnar eftir minnkun á tafatíma og biðröðum í umferðinni.
Lagt var upp með að bæta flæði umferðar með breytingum á ljósastýringum, þ.e. að minnka þann tíma sem fer til spillis á hverjum gatnamótum sökum vanstilltra umferðarljósa, sem og að samstilla ljósastýringar á vegkaflanum. Einnig kom fram í hermunum að lítil eða meðalstór breyting á gatnamótum Bústaðavegar og Kringlumýrarbrautar getur haft góð áhrif á umferð á háannatíma síðdegis.
Niðurstöður verkefnisins sýna að ekki þarf alltaf að fara í dýrar framkvæmdir til að ná góðum árangri í að bæta umferð. Einföld framkvæmd eins og endurstilling umferðarljósa skilar oft miklu.
Undir lok verkefnisins varð til hliðarverkefnið að kanna áhrif lítillar íbúabyggðar á Veðurstofureit á umferðina á Bústaðarvegi. Niðurstaðan gaf til kynna að slík byggð hefði ekki teljandi áhrif á umferð á háannatíma, án minni háttar mótvægisaðgerða.
Verkefnastjóri var Anna Guðrún Stefánsdóttir og Sigurður Andrés Þorvarðarson vann að verkefninu ásamt Lilju Guðríði Karlsdóttur frá VIAPLAN.
Frétt af RÚV: Ráðast þarf í aðgerðir til að leysa vandann.