13/06/2019

Hjólakvöldi WOW Cyclothon og heimsóttu Reykjadal

Hjólakvöldi WOW Cyclothon
Lið Verkís í WOW Cyclothon tók þátt í hjólakvöldi

Hjólakvöldi WOW Cyclothon. Í ár hefur verið ákveðið að áheit sem safnast í WOW Cyclothoninu 2019 renni óskipt til sumarbúðanna í Reykjadal og hófst söfnunin formlega í gærkvöldi. Verkís sendir eitt tíu manna lið til keppni í ár og er mikill hugur í liðinu.

Í gærkvöldi blésu WOW Cyclothon, sumarbúðirnar í Reykjadal og styrktaraðilar til hjólakvölds þar sem áfangastaðurinn var Mosfellsdalur, nánar tiltekið sumarbúðirnar í Reykjadal. Hjólað var frá Egilshöll, inn Mosfellsdal, upp á heiði og niður Kjósarskarðsveginn að malbiksenda. Þetta eru upphafskílómetrar keppninnar.

Á leiðinni til baka niður Mosfellsdalinn lögðu þátttakendur smá krók á leið sína og heimsóttu Reykjadal. Þar tóku gestir og starfsfólk vel á móti sveittum hjólurum með kaffi og grillmat.

Í ár sendir Verkís eitt tíu manna lið til keppni og er mikill hugur í liðinu. Tók hluti liðsins þátt í hjólakvöldinu og heimsótti Reykjadal. Hópurinn keppir í fyrirtækjaflokki þar sem krafan er um að allir í keppnishópnum séu starfsmenn fyrirtækisins sem þau keppa fyrir.

Lið Verkís í WOW Cyclothon 2019:
Ágúst Elí Ágústsson
Bryndís Hallsdóttir
Hallgrímur Örn Arngrímsson
Hörn Hrafnsdóttir
Kári Steinar Karlsson
Linda María Ólafsdóttir
Ragnar Haraldsson
Sigurður Gústafsson
Vala Jónsdóttir
Þórður Þorsteinsson

Keppnin fer fram dagana 25. – 29. júní. Nánar má lesa um WOW Cyclothon á heimasíðu keppninnar.

Sumarbúðirnar í Reykjadal eru reknar af Styrktarfélagi lamaðra og fatlaðra. Árlega koma um 250 börn og ungmenni í dvöl, en dvalargestir eiga það allir sameiginlegt að eiga ekki völ á hefðbundinni sumardvöl vegna fötlunar.

Markmið Reykjadals er að gefa þeim sem þurfa sérstaka þjónustu kost á að njóta þeirra upplifana og ævintýra sem slíkar dvalir fela í sér. Um leið er haft að markmiði að hver og einn njóti sín á sínum eigin forsendum í góðra vina hópi. Áheit WOW Cyclothon verða mikil lyftistöng fyrir uppbyggingu Reykjadals, en áætlað er að nýta ágóða söfnunarinnar í mikla og þarfa viðbyggingu við sumarbúðirnar sem mun bæta aðstöðuna til muna.

Hjólakvöldi WOW Cyclothon
Lið Verkís í WOW Cyclothon tók þátt í hjólakvöldi