04/06/2019

Breikkun brúar yfir Varmá velheppnuð áskorun

Breikkun brúar yfir Varmá
Breikkun brúar yfir Varmá

Breikkun brúar yfir Varmá velheppnuð áskorun. Verkís annast eftirlit með fyrsta hluta breikkunar Suðurlandsvegar á milli Hveragerðis og Selfoss. Verkið felst meðal annars í breikkun brúar yfir Varmá. Áin og nágrenni hennar eru á Náttúruminjaskrá  og þurfti því að huga sérstaklega vel að því að framkvæmdir röskuðu ekki viðkvæmu jafnvægi í lífríki árinnar. Framkvæmdir máttu aðeins fara fram á þriggja mánaða tímabili.

Verkið „Gljúfurholtsá – Varmá“ er fyrsti áfangi af verkinu Hringvegur(1) Biskupstungnabraut – Hveragerði, þ.e. breikkun Hringvegar. Heildarlengd fyrsta áfanga er um 2,5 km.

Til framkvæmdanna telst einnig gerð nýrra hliðarvega sem tengjast nýjum vegamótum, annars vegar Ölfusvegar frá Ölfusborgavegi að Hvammsvegi og hins vegar Ásnesvegi frá Vallavegi að Ásnesi. Brúin yfir Varmá var breikkuð um 13 metra og inni í verkinu er eru einnig undirgöng austan Varmár fyrir gangandi og ríðandi. Þá er einnig um að ræða breytingar á lagnakerfum veitufyrirtækja. Áform Vegagerðarinnar miða við svokallaðan tveir plús einn veg, með aðskildum akreinum, sem hægt verði að breikka í tveir plús tveir veg í framtíðinni.

Á svæðinu við brúna yfir Varmá er talsvert uppeldi sjógengis urriða, en þar er einnig uppeldi lax, flundru og ála. Þá er smádýralíf ríkulegt og fjölskrúðugt. Í útboðslýsingu fyrir verkið er mikil áhersla lögð á að framkvæmdir í og við Varmá taki tilliti til þess lífríkis sem er í ánni.

Þannig er gert ráð fyrir að tímasetning framkvæmda í og við Varmá skuli hagað þannig að þær falli utan veiðitíma og göngutíma laxfiska, bæði niðurgöngu seiða og uppgöngu fullorðins fisks eða nærri hrygningartíma. Sá tími er 1. apríl til 30. desember. Framkvæmdatíminn er því frá 31. desember til 31. mars, eða einungis þrír mánuðir.

Núverandi brú á Hringvegi við Varmá var byggð árið 1970. Breikkun brúarinnar um 13 metra fylgir formi eldri hlutans, sem er steinsteyptur stokkur á klöpp með grjóthleðslum til flóðvarna við stokksendann. Burðarvirkið er slakbent steinsteypa og er haflengd milli hliðarveggja um átta metrar. Ekki eru legur á brúnni og engar þensluraufar.

Knappur framkvæmdatími og slæmt veður

Helgi Bárðarson, byggingarverkfræðingur hjá Verkís, bendir í samtali við Vegagerðin á að framkvæmdatími hafi verið mjög knappur og veður hafi oft verið slæmt á þessum þremur mánuðum. Það hafi haft áhrif á framkvæmdina en framkvæmdaferlið hafi gengið mjög vel fyrir sig að hans mati. Vanda þurfti vel til verka og sjá til þess að allt færi vel fram og að ekki yrðu miklar tafir á framkvæmdum til að hægt væri að klára uppsteypu brúarinnar fyrir 1. apríl.

Vatnasvið árinnar er töluvert umfangsmikið og árfarvegurinn þröngur við brúna og hækkaði því oft vel í ánni á stuttum tíma þegar um miklar rigningar var að ræða eða mikil hláka var. Kom það fyrir að dælur höfðu ekki undan vatnavöxtum og flæddi því stundum fyrir sandpokahleðslurnar. Þrátt fyrir þessar tafir náðist að steypa seinni hliðarvegginn fyrir 1. apríl, en hann var steyptur 27. mars.

Þá átti aftur á móti eftir að steypa yfirbygginguna en upphaflega var gert ráð fyrir að undirstöður undir plötumót yfirbyggingar færu ofan í ána. Þar sem leyfilegur framkvæmdatími var liðinn var ákveðið að notast við aðrar aðferðir til að koma í veg fyrir rask í árfarveginum. Var því gripið til þess ráðs að festa stálbita á milli hliðarveggjanna og láta undirstöður fyrir plötumót hvíla ofan á þeim stað í stað þess að fara með þær ofan í ána.

Verkefnið er unnið af ráðgjöfum Verkís á Samgöngu- og umhverfisviði.

Verkís hefur í áratugi veitt ráðgjöf á sviði umferðarmannvirkja, við undirbúning og hönnun vega, göngu- og hjólastíga, brúa og undirganga.  

Frétt Vegagerðarinnar: Brúarsmíði yfir Varmá í góðri sátt við lífríkið í ánni

Breikkun brúar yfir Varmá
Breikkun brúar yfir Varmá