14/05/2019

Verkís skilar skýrslu vegna Global Compact í fyrsta skipti

Verkís skilar skýrslu vegna Global Compact
Höfuðstöðvar Verkís Ofanleiti 2 Reykjavík

Verkís skilar skýrslu vegna Global Compact í fyrsta skipti. Í dag skilaði Verkís í fyrsta skipti samfélagsskýrslu vegna sáttmála SÞ um samfélagsábyrgð (e. UN Global Compact). Samhliða skilunum höfum við opnað nýja undirsíðu á heimasíðu Verkís þar sem er að finna ýmsa tölfræði sem lýsir samfélagslegri ábyrgð Verkís.

Verkís skrifaði undir sáttmálann fyrir ári síðan. Með þátttökunni skuldbindur Verkís sig til að skila inn árlegri skýrslu og gera grein fyrir því hvernig grundvallarmarkmið sáttmálans hafa verið þættuð inn í alla starfsemi Verkís. Tuttugu og þrjú íslensk fyrirtæki hafa skrifað undir sáttmálann.

Á nýju undirsíðunni um sjálfbærni má meðal annars sjá að starfsfólk Verkís dró verulega úr losun gróðurhúsalofttegunda á milli áranna 2017 og 2018. Tölurnar ná til losunar frá rekstri stofunnar en stærstur hluti kolefnissporsins er vegna ferða á vegum vinnunnar. Hjá Verkís nýttu 58% sér heilsufarsstyrk á síðasta ári, 103 nýttu sér samgöngustyrk og kynjahlutfall 71/21, körlum í vil. Á síðunni er einnig hægt að lesa samfélagsskýrsluna.

Skil skýrslunnar veita Verkís gott aðhald og hvatningu til að gera betur. Starfsfólk tekur ákvarðanir á hverjum degi sem hafa áhrif á kolefnissporið. Þarf ég einkabílinn í vinnuna á hverjum degi? Af hverju þarf ég að prenta þetta skjal út? Get ég sparað mér ferðalagið og haldið fjarfund í staðinn?

Sáttmáli SÞ um samfélagsábyrgð er samstarfsverkefni SÞ og einkaaðila um að fylgja tíu viðmiðum SÞ um samfélagslega ábyrgð. Viðmiðin stuðla að og hvetja fyrirtæki til að leggja sitt að mörkum á sviði mannréttinda, vinnumarkaðsmála, umhverfismála og í baráttunni gegn spillingu.

Hin tíu grundvallarviðmið

Mannréttindi
Fyrirtæki styðja og virða vernd alþjóðlegra mannréttinda
Fyrirtæki fullvissa sig um að þau gerist ekki meðsek um mannréttindabrot.

Vinnumarkaður
Fyrirtæki styðja við félagafrelsi og viðurkenna í raun rétt til kjarasamninga.
Fyrirtæki tryggja afnám allrar nauðungar- og þrælkunarvinnu.
Virkt afnám allrar barnavinnu er tryggt.
Fyrirtæki styðja afnám misréttis til vinnu og starfsvals.

Umhverfi
Fyrirtæki styðja beitingu varúðarreglu í umhverfismálum.
Fyrirtæki hafi frumkvæði að því að hvetja til aukinnar ábyrgðar gagnvart umhverfinu.
Fyrirtæki hvetji til þróunar og nýtingar á umhverfisvænni tækni.

Gegn spillingu
Fyrirtæki vinni gegn hvers kyns spillingu, þar með talið kúgun og mútum.

Verkís skilar skýrslu vegna Global Compact
Höfuðstöðvar Verkís Ofanleiti 2 Reykjavík