Flöskuskeytið strandaði við Herdísarvík
Flöskuskeytið strandaði við Herdísarvík en hefur verið sjósett að nýju.
Þann 6. júlí síðastliðinn varpaði Atli Svavarsson flöskuskeytinu í sjóinn með mikilvægum skilaboðum. Skeytinu var kastað í hafið vestur af Reykjanesi en rak síðan hratt og örugglega að landi.
Atli og fjölskylda brugðust við og lögðu af stað í leiðangur til að sækja skeytið. Með aðstoð gps-tækni og nákvæms korts fundu þau skeytið í fjöru við Herdísarvík. Skeytið var upphaflega sett af stað í ferðalag til að minna á plastmengun í hafinu, með því að sýna fram á að það sem fer í sjóinn hverfur ekki, það sást vel í fjörunni sem var undirlögð af plasti og öðru rusli. Fjölskyldan tók því fram poka og hreinsaði fjöruna. Sjá nánar hér .
Nú hefur flöskuskeytið verið sjósett að nýju með aðstoð frá Jóni Inga, skipstjóra á Lagarfossi. Skeytinu var kastað fyrir borð miðja vegu milli Íslands og Færeyja og hefur nú gefið frá sér fyrsta merki um staðsetningu, því er spennandi ferðalag framundan.