22/06/2018

Stækkun tengivirkis í Búrfelli

Stækkun tengivirkis í Búrfelli
Tengivirki Búrfell

Stækkun tengivirkis í Búrfelli og endurnýjun á stjórn- og varnarbúnaði er lokið og tókst að ljúka verkinu án þess að taka þyrfti allt virkið úr rekstri og án þess að truflanir yrðu á raforkuflutningi.

Verkís sá um ráðgjöf, hönnunareftirlit og verkeftirlit við stækkun á tengivirkinu og endurnýjun á stjórn- og varnarbúnaði tengivirkisins í heild.

Vegna stækkunar Búrfellsvirkjunar og tengingar nýrrar vélar hennar við flutningskerfið þurfti að stækka tengivirki Landsnets í Búrfelli um einn rofareit. Samhliða stækkuninni var farið í að endurnýja stjórn- og varnarbúnað tengivirkisins. Siemens Portúgal sá um endurnýjun á stjórn- og varnarbúnaði en Siemens í Þýskalandi sá um stækkun á rofabúnaði. Verkefnastjórn var á höndum Siemens í Noregi fyrir heildar verkefninu.

Tengivirkið í Búrfelli er eitt stærsta og mikilvægasta tengivirki Landsnets og þurfti að ráðast í þessar breytingar með virkið í fullum rekstri. Framkvæmdin var því afar vandasöm og krafðist mikils undirbúnings og skipulags.

Tengivirkið er 220 kV gaseinangrað virki með 10 rofareitum, tvöföldum aðalteinum og varatein. Uppsett afl Búrfellsvirkjunar eftir stækkun er um 100 MW og tengist hún tengivirkinu í Búrfelli með þriggja kílómetra löngum jarðstreng. Upphafleg hönnun tengivirkisins gerði ekki ráð fyrir tengingu nýrrar virkjunar þangað inn. Því þurfti að gera ákveðnar breyta á tengivirkinu til að taka á móti orku frá nýrri virkjun.

Verkís sá um ráðgjöf við endurnýjun á stjórn- og varnarbúnaði tengivirkisins í heild og breytingar á rofabúnaði, hönnunareftirlit vegna deilihönnunar verktaka, vann valkostagreiningu og verklýsingu vegna endurnýjunar á stjórn- og varnarbúnaði fyrir tengivirkið, fór yfir tilboð frá verktaka og aðstoðaði við samningsgerð. Verkís sá einnig um framkvæmdareftirlit og prófanir á stjórn- og varnarbúnaði ásamt samræmingu við aðra aðila sem komu að verkinu.

Stækkun tengivirkis í Búrfelli
Tengivirki Búrfell