Búrfellsstöð II gangsett
Í dag var ný stöð í Búrfelli gangsett og hornsteinn lagður að stöðvarhúsinu. Verkefnið við stækkun Búrfellsvirkjunar hefur verið í vinnslu frá 2015 og framkvæmdir hófust vorið 2016. Búrfellsstöð II mun hámarka nýtingu rennslis Þjórsár við Búrfell.
Verkís annaðist gerð útboðsgagna vegna framkvæmda, lokahönnun, aðstoð á byggingartíma og hönnunarrýni.
Ný stöð er staðsett neðanjarðar í Sámsstaðaklifi en vatn til stækkunar virkjunarinnar er tekið úr inntakslóni núverandi Búrfellsvirkjunar (Bjarnalón). Lónið auk veitumannvirkja voru þegar til staðar þar vinna við stækkunina hófst og hluti af Búrfellsvirkjun. Úr inntakslóni er grafinn um 370 m langur aðrennslisskurður fram undir brún Sámsstaðaklifs að stöðvarinntaki.
Frá stöðvarinntaki fellur vatnið niður um 110 m löng fallgöng að stöðvarhúsi og þaðan er vatninu síðan veitt um 450 m löng frárennslisgöng út í 2,2 km langan frárennslisskurð sem leiðir það út í Fossá um 1 km neðan við núverandi stöð.
Uppsett afl nýrrar stöðvar er 100 MW með einni vél en gert er ráð fyrir að síðar verði hægt að stækka stöðina um allt að 40 MW. Búrfellsstöð II má auka orkugetu raforkukerfisins um allt að 300 GWst á ári. Kemur það til bæði vegna aukinnar nýtingar á rennsli og vegna minnkaðra falltapa í núverandi stöð þegar álag er fært af henni yfir á nýju stöðina.
Stækkun Búrfellsvirkjunar er unnin samkvæmt BIM aðferðafræðinni þar sem gerð eru þrívíð hönnunarlíkön af byggingarvirkjum og öllum kerfum virkjunarinnar. Hönnunarrýni, samræming og árekstragreining lagnakerfa byggð á þrívíðum hönnunarlíkönum auk þrívíddarskönnunar var nýtt í verkefninu með það að markmiði að auka gæði verkefnisins
Verkís óskar Landsvirkjun til hamingju með áfangann og þakkar fyrir samstarfið.