05/06/2018

Hreinsistöð Veitna í Borgarnesi tekin í notkun

Hreinsistöð Veitna
Dælustöð í Borgarnesi

Ný hreinsistöð Veitna í Borgarnesi verður formlega tekin í notkun í dag. Vinna við verkið hófst árið 2006 en hlé var gert á því árið 2010. Frá því að verkinu var haldið áfram í byrjun árs 2015 hefur hönnun og eftirlit verið í höndum Verkís.

Uppbyggingin fól í sér, auk hreinsistöðvarinnar, uppsetningu á ellefu nýjum dælustöðvum  og dælubrunnum sem dæla skólpinu frá gömlu útrásunum í átt að hreinsistöðinni, nokkrum kílómetrum af nýjum lögnum á landi auk 1,1 km sjólögn, að og frá hreinsistöðinni sem staðsett er í Brákarey. Stöðin hreinsar öll gróf efni úr skólpinu auk þess að sía frá sand og fitu. Hreinsuðu skólpinu er því næst dælt um Ø450 mm pípu 670 m út í sjó.

Hönnun mannvirkisins hófst árið 2006 og var smíði þess boðin út í áföngum 2007 og 2008. Árin 2008 – 2010 voru mannvirkin byggð, dælubrunnar settir niður og megnið af lagnavinnu klárað. Erfið fjárhagsstaða Orkuveitu Reykjavíkur í kjölfar hrunsins varð til þess að frekari nýframkvæmdum var frestað. Þráðurinn var tekinn upp aftur árið 2015 þegar lögn var lögð í sjó, lagnavinna kláruð og uppsetning vélbúnaðar hófst.

Með opnun hreinsistöðvarinnar í Borgarnesi í dag lýkur byggingu þriggja hreinsistöðva auk lagningu frárennsliskerfis fyrir Veitur, þ.e. hreinsistöð á Kjalarnesi sem tekin var í notkun 23. nóvember 2017, hreinsistöð á Akranesi sem opnuð var 16. maí sl. og loks hreinsistöðinni í Borgarnesi.

Verkís hefur frá upphafi verið aðalráðgjafi Orkuveitu Reykjavíkur/Veitna vegna framkvæmdanna og annast jarðtæknirannsóknir ásamt hönnun burðarvirkja, lagna- og loftræsikerfa, vélakerfa, veitulagna, ásamt því að sinna framkvæmdaeftirliti og landmælingum.

Verkís óskar Veitum og notendum til hamingju með áfangann.

Hreinsistöð Veitna
Dælustöð í Borgarnesi