Einu tonni af gulli hent á hverju ári
Keshav Parajuly, doktor í umhverfisverkfræði við háskólann á Suður-Jótlandi, hélt erindi í höfuðstöðvum Verkís sl. þriðjudag. Erindið fjallaði um rannsókn hans á virði og afleiðingum af raftækjaúrgangi með áherslu á verðmæti málma.
Í erindi sínu dró Keshav fram sögulegar staðreyndir um notkun rafmagnstækja, s.s. ísskápa, tölva og farsíma og hvernig væntingar um útbreiðslu slíkra tækja fóru langt fram úr væntingum allra, jafnvel aðila sem starfa í iðnaðinum.
Þá kom Keshav inn á hvernig mengun við námuvinnslu til hráefnisöflunar hefur áhrif á umhverfi og loftslag, heilsu, öryggi og aðstæður fólks sem vinna málm úr jörðu. Fór hann yfir lífsferil og framleiðslu rafmagnstækja þar til varan er komin í hendur notenda.
Það kom viðstöddum á óvart hversu mikið magn af málmum þarf til að framleiða þau raftæki sem eru á markaðnum, t.d. eru um 70 tegundir málma notaðir í einum farsíma. Samkvæmt rannsókn Keshav fer aðeins lítið hlutfall raftækja í endurvinnslu eða um 50 milljón tonna af raftækjum árlega á heimsvísu.
Til að setja þá tölu í samhengi þá eru það um 5000 Eiffel turnar. Þannig henda t.d. Danir árlega um einu tonni af gulli, þremur tonnum af silfri og fjórum tonnum af kopar. Keshav benti á að lífsferill raftækja þarf ekki að einskorðast við endurvinnslu heldur sé mikilvægt að draga úr framleiðslu á nýjum búnaði með því að gera við eldri búnað sem getur jafnvel verið betri vara en ný.
Fyrirtæki sem sérhæfa sig í að aðskilja úrgang frá raftækjum hafa yfir afar takmarkaðri tækni að ráða og því fer mikið af málmum til spillis. Það getur því verið eftir miklu að slægjast við endurvinnslu raftækja, ekki aðeins umhverfislega heldur einnig fjárhagslega, þar sem málmar frá raftækjum eru orðin eftirsóknarverð uppspretta líkt og námurnar þar sem hringrásin hefst.
Rannsókn Keshav er afar áhugaverð og vekur upp margar spurningar um hvernig við getum lagt okkar af mörkum.