28/02/2018

Sundhöllin Holmen tilnefnd til norsku varmadæluverðlaunanna

Morgunverðarfundur um sundhöllina Holmen
Holmen sundhöll

Sundhöllin Holmen í Asker í Noregi hefur verið tilnefnd til norsku Varmadæluverðlaunanna 2018 í flokki bygginga.

Þrjú verkefni voru tilnefnd í ár og verða verðlaunin afhent á norsku Varmadæluráðstefnunni í Fornebu í Osló 6. mars.

Hluti af þeirri orku sem notuð er við rekstur Holmen kemur frá varmadælum sem nýta orku sem fengin er úr fimmtán 200 m djúpum borholum á lóð sundhallarinnar. Þetta er í fyrsta sinn sem þessi verðlaun eru afhent í flokknum Byggingar. Við hjá Verkís erum mjög stolt að hafa hlotið þessa tilnefningu.

Sundlaugin var valin eitt af svokölluðum fimmtíu fyrirmyndarverkefnum FutureBuilt í Noregi. Verkefnin eiga að minnka losun gróðurhúsalofttegunda um 50% innan sviða umferðar-, orku- og efnisnotkunar. Verkefnið er unnið samkvæmt BIM aðferðafræðinni.

Á dögunum var Holmen tilnefnd sem bygging ársins 2017 af Samtökum atvinnulífsins í Noregi (NHO). Sundhöllin er hönnuð af Arkís arkitektum og Verkís. Verkís er heildarráðgjafi verkefnisins en Arkís arkitektar hafa séð um alla arkitektahönnun. Verkefninu var stýrt af OP-Verkis í Osló. Tilkynnt verður um sigurvegarann þann 14. mars nk. í tengslum við hátíðina Byggedagene í Osló.

Morgunverðarfundur um sundhöllina Holmen
Holmen sundhöll