Gullmerki PwC í annað sinn
Verkís hlaut nýverið gullmerki PwC fyrir jafnlaunaúttekt sem greinir hvort kynbundinn launamunur sé innan fyrirtækja þegar tekið hefur verið tillit til þátta sem hafa áhrif á laun, s.s. menntunar, starfsaldurs, vinnustunda og starfshóps.
Gullmerkið þýðir að óútskýrður launamunur á grunn- og heildarlaunum karla og kvenna er minni en 3,5%. Þegar tekið hefur verið tillit til þeirra þátta sem hafa áhrif á laun er óútskýrður launamunur á heildarlaunum hjá Verkís innan við 1%.
Þetta er í annað sinn sem Verkís hlýtur gullmerki PwC en árið 2012 var Verkís fyrst allra fyrirtækja á Íslandi til að komast í gegnum úttektina. Þá greindist óútskýrður launamunur hjá Verkís um 2% og var það langlægsti munur PwC hafði séð á þeim tíma. Starfmenn Verkís eru um 340 talsins, þar af eru 30%
konur og 70% karlar.
„Við megum vera mjög stolt af því að hljóta gullmerkið og er þessi viðurkenning staðfesting á góðri stefnu Verkís í jafnréttismálum og þeirri jafnréttishugsun sem er hluti af menningu fyrirtækisins,“ segir Sveinn I. Ólafsson, framkvæmdastjóri Verkís.
„Það er virkilega ánægjulegt að fá staðfestingu á því að sá hluti sem snýr að jafnrétti í launaákvörðunum sé í góðu lagi hjá okkur. Við höfum lagt mikla áherslu á jafnréttismál hjá Verkís og er það í raun hluti af menningu fyrirtækisins. Við höfum haft skýra jafnréttisstefnu frá árinu 2008 þar sem við höfum m.a. sett okkur þau markmið að auka hluta kvenna hjá fyrirtækinu og þá sérstaklega í tæknistörfum og stjórnendahópi fyrirtækisins. Og hefur það gengið vel eftir,“ segir Elín Greta Stefánsdóttir, mannauðsstjóri Verkís.
„Einnig leggjum við mikla áherslu á jafnvægi milli einkalífs og vinnu, þar sem starfsmönnum er gert kleift að sinna sínu fjölskylduhlutverki á sem bestan hátt og teljum við það vera stór hluti af því að ná árangri í jafnrétti.“