10/06/2025

Verkfræðileg nálgun við flóðavarnir í Póllandi kynnt á NHC 2025

NHC haldið á Íslandi í fyrsta sinn í 17 ár

Nordic Hydrological Conference (NHC) fór fram dagana 3.–5. júní í Reykjavík, en ráðstefnan hefur verið lykilvettvangur norrænu og baltnesku vatnafræðisamfélaganna í áratugi. Áhersla var lögð á áhrif loftslagsbreytinga á vatnafar og nauðsyn aðlögunaraðgerða, en jafnframt var opið fyrir fjölbreytt erindi sem varpa ljósi á nýsköpun og rannsóknir á sviði vatnsauðlinda og stjórnun þeirra.

Áskoranir í landslagi án frárennslis

Sigurður Grétar Sigmarsson, vatnafræðingur hjá Verkís, flutti erindi á ráðstefnunni þann 4. júní. Þar kynnti hann rannsókn á regnvatnsstýringu í bænum Gryfino í Póllandi, sem einkennist af svokölluðu „closed depression“ landslagi – láglendi án náttúrulegra útfallsvatnsleiða.
Í slíkum svæðum getur borgarþróun valdið mikilli uppsöfnun yfirborðsrennslis, sem leiðir til aukinnar flóðahættu og setmyndunar sem hindrar írennsli í grunnvatn. Rannsóknin sýndi fram á að án markvissrar regnvatnsáætlunar geta borgir þurft að grípa til kostnaðarsamra lausna eins og dælustöðva, varnarmannvirkja eða kaupa upp skemmdar fasteignir.

Sigurður Grétar Sigmarsson

Innleiðing blágrænna innviða dregur úr flóðahættu

Rannsóknin leiddi til þróunar hugmyndalegrar regnvatnsáætlunar fyrir hverfi í Gryfino. Áhersla var lögð á innleiðingu blágrænna innviða – náttúruleg og hálfnáttúruleg svæði innan borgarumhverfis – sem styðja vistkerfisþjónustu og sjálfbæra meðhöndlun ofanvatns.
Niðurstöður bentu til þess að slík innviðaþróun gæti minnkað hækkun á flóðastigi og dýpt um 30–80% miðað við þróun án aðgerða. Áætlunin fól í sér tillögur um landnotkun, stýringu yfirborðsrennslis, skilgreiningu á flóðaleiðum og verndun innviða. Engu að síður komu í ljós stofnanalegar hindranir, svo sem skipulagsreglur og hefðbundnar framkvæmdaraðferðir, sem takmörkuðu möguleika til innleiðingar.

Alþjóðlegt samstarf og miðlun þekkingar

Verkefnið var unnið í samstarfi við sveitarfélagið Gryfino og styrkt af EEA-styrknum. Sigurður vann að verkefninu ásamt Dagmar Ólafsdóttur, sem þá starfaði hjá Verkís en er nú í meistaranámi í Japan. Þetta undirstrikar mikilvægi alþjóðlegrar samvinnu í loftslagsaðlögun og vatnsstýringu.

 

Tengdar fréttir:

Verkís fékk heimsókn frá Gryfino í Póllandi
Samstarfsráðstefna í Póllandi
Verkís í Gryfino

 

Heimsmarkmið