16/04/2025

Ragnar Steinn Clausen kjörinn í stjórn BIM Ísland

© www.bim.is

Á aðalfundi BIM Ísland sem haldinn var í síðustu viku var Ragnar Steinn Clausen, verkefnastjóri hjá Verkís, kjörinn í stjórn samtakanna. Hann tekur sæti í stjórninni fyrir hönd Verkís, sem hefur verið virkur meðlimur og styrktaraðili BIM Ísland um árabil.

BIM Ísland og hlutverk stjórnarinnar

BIM Ísland eru félagasamtök aðila sem koma að hönnun, framkvæmd, rekstri og eignaumsýslu mannvirkja. Markmið félagsins er að hvetja til stöðugra umbóta í notkun BIM og stafrænnar tækni, með það að markmiði að auka gæði mannvirkja og stuðla að hagræðingu á líftíma þeirra. Undanfarin ár hefur félagið unnið að samræmdu verklagi fyrir BIM verkefni á Íslandi og stuðlað að tæknibyltingu í greininni.

Stjórn BIM Ísland gegnir lykilhlutverki í þessari þróun – hún kemur að gerð leiðbeininga og staðla á íslensku, þróun verkfæra og innleiðingu BuildingSmart á Íslandi. Þá skipuleggur stjórnin viðburði á borð við Dag stafrænnar mannvirkjagerðar og vinnur að BIM Skapalón.

Verkefni Ragnars og áherslur

Ragnar hefur í ellefu ár unnið hjá Verkís og komið að fjölmörgum stórum samgöngu- og mannvirkja verkefnum þar sem BIM hefur verið lykil aðferðafræði. Hann hefur þróað forsnið og grunnskjöl í tengslum við BIM hjá Verkís og aðstoðað verkkaupa við að skilgreina kröfur og samskiptaleiðir. Hann er jafnframt virkur í hópi innan Verkís sem vinnur að stafrænum lausnum, þar sem innleiðing ACC (Autodesk Construction Cloud) hefur gegnt lykilhlutverki.

Ragnar Steinn Clausen

Í fyrra hélt Ragnar, ásamt öðrum, erindi á Autodesk University ráðstefnunni í San Diego, þar sem kynnt var notkun ACC í í stórum samgöngu- og innviðarverkefnum. Skoða erindið hér

Verkís og framtíð BIM

Verkís hefur lengi lagt ríka áherslu á stafræna þróun og BIM innleiðingu. Með kjöri Ragnars í stjórn BIM Ísland er styrkur Verkís í þessum málaflokki viðurkenndur og ný tækifæri skapast til að leggja enn frekari áherslu á þróun og nýsköpun á þessu sviði – sérstaklega með tilkomu gervigreindar og aukinnar gagnavinnslu sem mun hafa veruleg áhrif á framtíð hönnunar og framkvæmda.

Við óskum Ragnari innilega til hamingju með kjörið og hlökkum til að fylgjast með því sem hann og stjórn BIM Ísland munu áorka á komandi misserum.

Heimsmarkmið

© www.bim.is