Verkís tók þátt í opinberri heimsókn forseta Íslands til Noregs

Áhersla á sjálfbæra nýsköpun og eflingu tengsla á milli Íslands og Noregs
Verkís tók virkan þátt í opinberri heimsókn Höllu Tómasdóttur, forseta Íslands, til Noregs dagana 8.–10. apríl 2025. Heimsóknin var vettvangur til að efla samstarf milli landanna með áherslu á sjálfbæra þróun, nýsköpun, blátt hagkerfi og græna umbreytingu á Norður-Atlantshafi. Verkís átti fulltrúa í viðskiptasendinefnd Íslands, sem samanstóð af rúmlega 30 fulltrúum úr íslensku atvinnulífi.
Heimsóknin var skipulögð af Íslandsstofu og Innovation Norway í samstarfi við Norska-íslenska viðskiptaráðið, Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi, Íslenska sjávarklasann og Green by Iceland. Markmið heimsóknarinnar var að dýpka tvíhliða samstarf, finna sameiginleg verkefni og skapa ný tækifæri til fjárfestinga og nýsköpunar sem styðja við sjálfbæran hagvöxt í báðum ríkjum.
Ráðstefnur, pallborðsumræður og tengslamyndun
Í Osló hófst dagskráin með ráðstefnu í BI Norwegian Business School þar sem rætt var um ábyrgð leiðtoga í heimi áskorana. Daginn eftir var haldið grænt viðskiptaþing í húsakynnum Innovation Norway. Þar fóru fram öflug tengslamyndun, erindi og pallborðsumræður þar sem málefni á borð við græna umbreytingu, kolefnisföngun og nýtingu hreinna orkugjafa voru í forgrunni.

Í Þrándheimi var síðan haldið viðskiptaþing tileinkað bláa hagkerfinu. Þar var meðal annars fjallað um nýsköpun í vinnslu sjávarafurða, hringrásarhagkerfi í sjávarútvegi, græna nýsköpun í siglingum og orkunýtnar lausnir í sjávarútvegi og fiskeldi. Kynntar voru háþróaðar lausnir frá bæði íslenskum og norskum fyrirtækjum, þar á meðal sjálfvirkt myndavélakerfi í fiskeldi og tækni til að stytta leiðir að uppsjávarfiski.
Mikilvægt tækifæri fyrir alþjóðlegt samstarf
Þátttaka Verkís í þessari heimsókn styrkti tengsl fyrirtækisins við önnur íslensk og norsk fyrirtæki og stofnanir sem starfa á sviði sjálfbærrar orku, nýsköpunar og tækni. Ferðin skapaði ný tækifæri til samstarfs og verkefna á alþjóðavísu, og styður við stefnu Verkís um að vera leiðandi í þróun vistvænna og framsækinna lausna. Slík þátttaka eykur sýnileika Verkís á erlendum vettvangi og undirstrikar mikilvægi þess að íslensk þekking og reynsla sé hluti af hnattrænu samtali um sjálfbæra framtíð.