Verkís í dómnefnd þegar Rupodex sigraði spennandi keppni á UT messunni

Verkís er stoltur styrktaraðili ásamt JBT Marel fyrir Hönnunarkeppni Háskóla Íslands sem fram fór á laugardag kl. 12 í Silfurbergi í Hörpu, sem er hluti af UT messunni. Keppnin vakti mikla athygli og var umgjörðin afar vel heppnuð.
Sunna Ósk Kristinsdóttir, rekstrarstjóri á byggingasviði Verkís, var í dómnefnd keppninnar, en auk hennar voru dómarar fulltrúi frá JPT Marel og þrír fulltrúar frá Háskóla Íslands.
Alls tóku 10 lið þátt og var keppnin jöfn og spennandi. Salurinn var næstum fullur af áhorfendum á köflum, enda var um að ræða virkilega skemmtilega keppni. Sigurvegarar að þessu sinni voru Rupodex, nemendur úr tæknifræði við Háskólann í Reykjavík, sem sýndu yfirburða frammistöðu.
Rupodex fékk fullt hús stiga, 19 stig, í báðum umferðum og leysti allar þrautir með glæsibrag. Hópurinn notaði skynjara til að skynja línuna í brautinni og stilla sig af, og gengu þær aðferðir fullkomlega upp.
Verðlaun fyrir frumlegustu hönnunina hlaut Golden Horse, sem sýndi óhefðbundna nálgun á keppnina. Tækni þeirra innihélt öðruvísi beygjubúnað og skemmtilega lausn þar sem tækið kastaði hringjum frá sér. Þó svo að Golden Horse hafi ekki komist langt í fyrri umferð, kom það sterkt inn í seinni umferð og kláraði næstum brautina.
Yngsti keppandinn var 10 ára að verða 11 og keppti með bróður sínum og föður. Þeir kölluðu liðið sitt „Computer says no“ og voru með skynjarabúnað til stýringar. Lenti liðið í öðru sæti.
Í þriðja sæti voru keppendur frá HR undir nafninu RURobotics.
Keppnin er haldin árlega og er opin öllum. Brautin fyrir næstu keppni verður gefin út í október/nóvember á þessu ári. Hámarkskostnaður við tækið er 70 þúsund krónur og einnig eru kvaðir á stærð og þyngd tækisins.
Verkís óskar sigurvegurum innilega til hamingju og hlakkar til næstu keppni.