Frumdrög að Borgarlínu um Hamraborg
Frumdrög að Borgarlínu um Hamraborg. Vegagerðin og Verkís hafa skrifað undir samning um gerð frumdraga að Borgarlínu um Hamraborg.
Verkefnið felur m.a. í sér gerð frumdraga að legu Borgarlínu í götusniði Hafnarfjarðarvegar innan Kópavogs og staðsetningu og útfærslu borgarlínustöðvar/-a í Hamraborg ásamt gerð kostnaðaráætlunar fyrir framkvæmd verksins.
Í útboðslýsingu segir að Hamraborg sé mikilvæg samgöngumiðstöð, sem tengi alla ferðamáta og verði tengipunktur í leiðarneti Borgarlínunnar og Strætó. Hamraborg tengi einnig saman framkvæmdalotu 1, 2 og 4, eða þrjár af sex lotum Borgarlínunnar. Lota 1 er Hamraborg-Ártúnshöfði, lota 2 Hamraborg-Lindir og lota 4 Fjörður-Miklabraut (með viðkomu í Hamraborg).
Verkefnið var auglýst á útboðsvef opinberra útboða og á Evrópska efnahagssvæðinu (EES) og tilboð opnuð þriðjudaginn 27.júní sl. Gengið var til samninga við Verkís sem bauð í verkefnið með VSB verkfræðistofu, Rambøll og Urbana skipulagsráðgjöf.
Á myndinni, sem tekin var við undirritun samningsins þriðjudaginn 11. júlí sl., eru frá vinstri: Bryndís Friðriksdóttir, svæðisstjóri höfuðborgarsvæðis Vegagerðarinnar, Hallbjörn Reynir Hallbjörnsson, verkefnisstjóri Vegagerðarinnar, Grétar Páll Jónsson, verkefnisstjóri Verkís og Guðrún Dröfn Gunnarsdóttir, sviðsstjóri Samgöngu- og umhverfissviðs Verkís.