04/07/2023

Flughlaðasvæðið á Keflavíkurflugvelli – Uppbygging

Flughlaðasvæðið á Keflavíkurflugvelli
Flugstöð Leifs Eiríkssonar.

Flughlaðasvæðið á Keflavíkurflugvelli – Uppbygging. Stór skref verða stigin í uppbyggingu og þróun Keflavíkurflugvallar næstu ár og áratugi en ný uppbyggingaráætlun var samþykkt árið 2021. Byggt hefur verið við flugstöðina í mörgum áföngum til að mæta stóraukinni flugumferð og fjölgun ferðafólks. Í heild hefur flugstöðin stækkað meira en þrefalt frá vígslu hennar árið 1987.

Nú er unnið að endurbyggingu svæðanna austan og sunnan við núverandi norðurbyggingu Leifsstöðvar í Keflavík með fyrsta áfanga austurbyggingar (SLN18) og stækkun tengibyggingar milli norður- og suðurbyggingar (SLN21). Framkvæmdirnar eru samkvæmt aðalskipulagi Keflavíkurflugvallar og eru mikilvægur þáttur í stækkunaráætlun flugvallarins. Vegna þessara tveggja verkefna þarfnast flughlaðasvæðið sem þjónustar flugstöðinni á þessum stað mikillar uppbyggingar.

Verkís í samstarfi við erlendu verkfræðistofuna WSP sér um alla flughlaðshönnun, hönnun yfirborðs, burðarvirkis, frárennslis- og snjóbræðslukerfis. Mannvit sér um hönnun eldsneytiskerfis og VSÓ um hönnun rafkerfis. Í mars lauk hönnun á stage 4 gögnum fyrir fasa tvö í verkefninu og er verkefnið nú í útboði. Þá kemur Verkís einnig að verkfræðihönnun bygginganna SLN18 og SLN 21.

Flughlaðasvæðið á Keflavíkurflugvelli
Hér má sjá yfirlitsmynd af því hvernig flugvélastæðin munu koma til með að líta út og legu kerfa.

Lærdómsríkt ferli fyrir hönnuði Verkís

Fasi tvö, hönnun flughlaðs, snýr að breytingum á núverandi flughlaði og stækkun þess til austurs. Þar munu koma tvö ný MARS flugvélastæði en tengibyggingar vegna stæðanna eru að fara í framkvæmd og tengjast SLN18 byggingunni sem er fyrsti áfangi í stækkun flugstöðvar til austurs. Sjá nánari upplýsingar um austurbyggingu. Settur verður upp tengigangur yfir í MARS 2 bygginguna til bráðabirgða þangað til næsti áfangi af stækkun flugstöðvar til austur verður framkvæmdur (sjá þrívíddarmynd).

MARS flugvélastæði eru stæði þar sem hægt er að þjónusta annað hvort tvær litlar flugvélar eða eina stóra flugvél og því eru tvær landgöngubrýr á hverju stæði fyrir sig og þrjár miðlínur flugvéla. Auk þess koma þjónustuvegir í kringum stæðin.

Koma þarf fyrir ýmsum kerfum og búnaði, s.s frárennsliskerfi, rafmagnskerfi vegna ýmisskonar búnaðar sem kemur á flughlaðið (lýsing, stjórn-og varnarbúnaður, hleðslustöðvar, landgöngubrýr ofl), eldsneytiskerfi auk snjóbræðslu. Hanna þarf yfirborð flughlaðs ásamt allri jarðvinnu, hönnun tengibrunna, styrkinga við brunnlok vegna flugvélaálags, undirstöður ljósamastra, landgöngubrúa, hönnun árekstrarvarna, merkinga ofl. Hluti af hönnuninni er einnig að útfæra aksturgreiningar út frá umferð flugvéla og þjónustutækja á háannatíma í rekstri flugvallarins til þess að greina hvort upp komi vandamál sem geta haft áhrif á þjónustustig flugvallarins.

Verkefnið er BIM verkefni og er þetta í fyrsta skipti sem Verkís útfærir hönnun í svona miklum smáatriðum í flughlaðsverkefni sem hefur falið í sér mikinn lærdóm fyrir hönnuði.

Ragnar Steinn Clausen, verkefnisstjóri verkefnisins og Guðrún Jóna Jónsdóttir, aðstoðarverkefnisstjóri.
Ragnar Steinn Clausen, verkefnisstjóri verkefnisins og Guðrún Jóna Jónsdóttir, aðstoðarverkefnisstjóri. Myndin var tekin þegar teymið fagnaði því að hafa skilað af sér hönnun á stage 4 gögnum fyrir fasa tvö í verkefninu.

Að ýmsu að huga vegna reksturs á framkvæmdartíma

Þar sem flugvöllurinn er í fullum rekstri á framkvæmdartíma þarf að huga að mörgu svo framkvæmd sem þessi hafi sem minnst áhrif á rekstur flugvallarins. Verkefnið er skipulagt í tveimur fösum og girt af þannig að verktaki vinnur jarðvinnu innan haftasvæðis flugvallar þar sem öll efnislosun fer fram og síðan er verktakagirðing færð þannig að uppbygging er unnin utan haftasvæðis flugvallar sem einfaldar verkið til muna fyrir verktakann þar sem hann þarf þá ekki að fara með starfsmenn sína, tæki og búnað í öryggisleit sem er tímafrekt ferli og áhrif framkvæmdarinnar á rekstur því minni.

Verkefnið fór í útboð 27. febrúar sl. Áætlaður framkvæmdatími er eitt ár og stefnt er að því að taka flugvélastæðin í notkun fyrir sumarið 2024.

Á Kef+ má kynna sér framtíðarsýn (þróunaráætlun) Keflavíkurflugvallar og hvaða verkefni eru í hönnun og framkvæmd: Keflavíkurflugvöllur – Stöðug þróun og ábyrg uppbygging (kefplus.is)

Verkís er með útibú við Hafnargötu 57 í Reykjanesbæ.

Heimsmarkmið

Flughlaðasvæðið á Keflavíkurflugvelli
Flugstöð Leifs Eiríkssonar.